Stjórn Félags fréttamanna hefur sent frá sér tilkynningu þar sem skorað er á menntamálaráðherra, ríkisstjórn Íslands og Alþingi að tryggja Ríkisútvarpinu ohf. þær tekjur sem lofað var þegar Ríkisútvarpinu var breytt í opinbert hlutafélag.
Í tilkynningunni segir að Ríkisútvarpið geti ekki sinnt lýðræðis- og menningarlegu hlutverki sínu, né þeirri almannavarnaþjónustu sem því er ætlað nema með auknum tekjum.
Þá segir að stjórnin undrist forgangsröðun við niðurskurðinn, sem bitnaði um of á fréttastofum Útvarpsins og Sjónvarpsins. Hlutfallslega koma uppsagnir vegna niðurskurðarins verst niður á fréttastofunum. Það er mat stjórnar félagsins að niðurskurðurinn veiki fréttastofurnar, ekki síst á landsbyggðinni þar sem hlutfallslega mörgum var sagt upp.