Fundur hjúkrunarfræðinga með samninganefnd ríkisins í gær var árangurslaus. Í gærkvöldi fóru hjúkrunarfræðingar síðan yfir stöðuna á fjölmennum fundi og er ljóst að boðað yfirvinnubann hefst 10. júlí að öllu óbreyttu.
Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, segir að stemningin hafi verið góð. Fundarmenn hafi gefið tóninn með miklu hvatningarklappi og síðan hafi verið farið yfir samningaviðræðurnar og hvernig hjúkrunarfræðingar ættu að haga sér í boðuðu yfirvinnubanni.
Elsa segir að vaktakerfi hjúkrunarfræðinga sé flókið og ólíkt á milli stofnana. Heilsugæslan sé að hluta til með helgarútköll og sumir hjúkrunarfræðingar séu á bakvöktum svo dæmi séu tekin. Farið hafi verið yfir stöðuna og væntanleg viðbrögð. Fundargestir hafi sýnt mikla samstöðu, einhug og baráttuvilja og tekið undir málin með hvatningarklappi hvað eftir annað. „Þetta var mikil stemning,“ segir hún.