Tilboðið óásættanlegt

Læknar
Læknar Þorvaldur Örn Kristmundsson

Alger samstaða ríkti á félagsfundi Læknafélags Íslands í gær um að hafna 20.300 kr. launahækkun og undirbúa verkfallsaðgerðir í haust, náist ekki að semja fyrir þann tíma. Þetta segir Gunnar Ármannsson, framkvæmdastjóri félagsins. Hann segir 8% raunlaunalækkun hafa falist í boðinu. Læknar vilji fá 10% launahækkun sem sé í samræmi við þá samninga sem gerðir hafa verið við aðrar stéttir upp á síðkastið.

„Þetta tilboð ríkisins upp á 20.300 kr. felur í raun í sér mestu raunlaunalækkun hjá einum hópi hjá hinu opinbera sem er í boði,“ segir Gunnar. Það stafi af því að sökum hárra launa lækna hafi tilboðið hlutfallslega mjög lítið að segja. Hann segir ástæðuna fyrir því að læknar höfnuðu tilboðinu snúa að menntuninni. „Fólk er búið að leggja á sig gríðarlega langt og erfitt nám og þegar til kastanna kemur hjá hinu opinbera, þegar á að verja kaupmáttinn, þá á að ráðast á þann hóp sem hefur lagt á sig mestu menntunina og hann á að hækka minnst. Við veltum því fyrir okkur hvaða skilaboð það eru til þeirra sem eru nú í þeim sporum að velja sér námsleiðir.“

Gunnar segir að hefði tilboðið verið samþykkt væri ekki fýsilegt fyrir lækna í sérfræðinámi erlendis að koma heim með þá miklu þekkingu sem þeir hefðu aflað sér. „Svo má heldur ekki gleyma því að þegar læknar, sem fara í þetta langa nám, koma heim úr sérnámi, oft í kringum fertugt, þá eru þeir að koma heim oftast nær með tvær hendur tómar. Þannig þurfa læknar að taka inn ævitekjur sínar á miklu skemmri tíma heldur en flestar aðrar stéttir. Við teljum óeðlilegt og óásættanlegt að það eigi að refsa þessu sama fólki fyrir það að leggja þetta á sig.“

Fundur Læknafélags Íslands með sáttasemjara hófst kl. 10 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert