Umferð dregst saman

Dregið hefur úr umferð um Hringveginn á milli ára, samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar. Hefur dregið úr umferð á öllum völdum talningarstöðum nema þeim sem eru vestan Hvolsvallar og er talið að það geti tengst Landsmóti hestamanna sem nú stendur yfir. Samdrátturinn er mestur við Hvalsnes í Lóni, 12,23% á milli ára.

Við samanburð á umferð um Hringveginn í júní í ár og sama mánuð í fyrra sést að umferðin hefur samanlagt dregist saman um 5,56% og eini staðurinn þar sem umferð hefur aukist er vestan við Hvolsvöll þar sem aukningin er 1,47%.

10,44% færri aka um Hellisheiði í ár en í fyrra

Á Mývatnsöræfum er umferðin 11,11% minni í júní í ár en í fyrra. Á Hellisheiði hefur umferðin dregist saman um 10,44% og á Holtavörðuheiði 9,33%.

Á undanförnum vikum hefur Vegagerðinni borist fjöldi fyrirspurna frá opinberum aðilum, fjölmiðlum og áhugasömum einstaklingum, um þróun umferðar á landinu. Fólk hefur viljað vita hvort áhrifa bensínverðs sé farið að gæta á akstursvenjur fólks. Vegna þessa hafa verið teknar saman tölur um þróun umferðar á 14 talningarstöðum vítt og breitt um landið, að því er segir á vef Vegagerðarinnar.

Tafla sem sýnir samdráttinn

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka