Aðgangur að Kerinu í Grímsnesi takmarkaður

Kerið í Grímsnesi.
Kerið í Grímsnesi. mbl.is/ÞÖK

Kerfélagið ehf, eigandi Kersins í Grímsnesi, hefur ákveðið að takmarka aðgang að Kerinu við umferð almennings en stöðva skipulagðar hópferðir rútubíla. 

Í tilkynningu frá Kerfélaginu kemur fram að ástæða þessarar ákvörðunar sé sú að mikil ásókn á undanförnum árum hefur valdið náttúruspjöllum við Kerið, sem nauðsynlegt er að sporna við áður en í meira óefni fer.  Þá segir að langstærsti hluti ferðamanna komi í hópferðum sem rútufyrirtækin bjóða gegn gjaldi og því sé réttast að takmarka þær en veita almenningi í einkaferðum áfram óheftan og ókeypis aðgang að Kerinu eins og verið hefur.

Samtök ferðaþjónustunnar lýsa furðu sinni yfir þessari ákvörðun þar sem kveðið er á um það í náttúruverndarlögum að almenningi sé heimil för um landið í lögmætum tilgangi.  Auk þess sé það undarlegt að mismuna ferðamönnum eftir því hvort þeir eru í rútu eða á einkabíl.  Þá segir í tilkynningu frá samtökunum að Vegagerðin og Ferðamálastofa hafi staðið straum af kostnaði við bílastæði við Kerið, göngustíga og uppsetningu upplýsingaskilta og er Kerið kynnt sem áfangastaður á heimasíðu Vegagerðarinnar.

Samtök ferðaþjónustu segja þessa ákvörðun hafa verið tekna eftir viðræður Kerfélagsins við stærri ferðaskrifstofur um að þær greiði gjald fyrir hvern farþega sem stoppar við Kerið.  Ferðaskrifstofurnar hafi hins vegar hafnað greiðslum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert