Ferðavenjur breytast lítið

Flestir þeir sem breytt hafa ferðavenjum sínum vegna hás eldsneytisverðs …
Flestir þeir sem breytt hafa ferðavenjum sínum vegna hás eldsneytisverðs hafa dustað rykið af reiðhjólið góða. AP

Rúm 60% fólks segjast ekkert hafa breytt ferðavenjum sínum vegna hækkandi eldsneytisverðs. Þetta kemur fram í Þjóðarpúlsi Gallup. Rúm 30% segjast hafa breytt venjum sínum nokkuð eða lítið en aðeins 6% segjast hafa gert miklar breytingar.

Þegar spurt var um ferðamáta til vinnu eða skóla á morgnana sögðust tæplega 56% ferðast einir í bíl, fleiri karlar en konur, samanborið við tæp 59% í fyrra. Rúm 19% ferðast með öðrum í bíl og sama hlutfall notast við reiðhjól eða tvo jafnfljóta, samanborið við tæp 16% í fyrra. Milli ára hefur þeim sem notast við strætó fjölgað úr 2,4% í 3,8%.

Spurt á hvaða máta fólk hefði breytt ferðatilhögun sinni sögðust flestir, eða tæpur þriðjungur, fara ferða sinna oftar á reiðhjóli. 28% sögðust ganga meira en aðeins tæp 10% sögðust nota meira strætó. 

Niðurstöðurnar eru úr netkönnun sem Capacent Gallup gerði 20.-29. júní. Úrtakið var 1.130 manns á aldrinum 18-75 ára af öllu landinu og var svarhlutfall um 64%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert