Næsta ár verður erfitt fyrir sjávarútveginn

Þorskur á markaði í Skotlandi.
Þorskur á markaði í Skotlandi. Reuters

„Ég held að því séu auðvitað takmörk sett hversu lengi sjávarútvegurinn getur þolað svona litlar aflaheimildir. Hins vegar hefur greinin sýnt gríðarlega aðlögunarhæfni. Í greininni starfa færir stjórnendur sem hafa getað unnið sig út úr þessu,“ segir Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra. Leyfilegur hámarksafli afli af þorski á næsta fiskveiðiári er 130 þúsund tonn.

Gengisþróun og hækkað fiskverð hafi hjálpað til, en tekjutapið sem niðurskurðurinn í fyrra olli sé mikið. Hann gerir ráð fyrir því að næsta fiskveiðiár verði útgerðarfyrirtækjum og sjómönnum erfitt, enda sé nú miklu minna af geymdum aflaheimildum, a.m.k. í þorski, frá fyrra ári en var á yfirstandandi fiskveiðiári.

Hins vegar létti mikill ýsukvóti undir á næsta ári. Aflamark hennar var 100.000 tonn síðast og geymsluréttur því töluverður nú, að sögn Einars. Hann játar því að hafa verið undir þrýstingi um að úthluta meiri aflaheimildum í þorski en síðast. „Já, margir hafa talað um það við mig að þeir séu ósammála mati Hafró og vefengt grundvöllinn sem við byggjum þetta á.“

Hann segir reynslu síðasta árs ekki nóg til að dæma um árangur. Samt séu ljósglætur í myrkrinu, þ.e. minnkandi fiskdauði og stækkandi þorskhrygningarstofn.

„Hneyksli og hneisa“

„Þetta er hneyksli og hneisa,“ segir Magnús Kristinsson útgerðarmaður um heildarafla næsta árs. „Ég sem útgerðarmaður átti aldrei von á að í þessu efnahagsumhverfi sem ríkir hér á Íslandi myndi kvótinn verða skorinn niður.

Ég varpa þessari spurningu til Einars K. Guðfinnssonar og Geirs H. Haarde: Hvernig eiga menn að framfleyta sjálfum sér þegar aflinn er skorinn niður í tegundum eins og ýsu og ufsa? Þetta er hneyksli, það er bara til eitt orð yfir þetta.

Efnahagsumhverfið er þannig að maður er á mörkum þess að geta lifað lífinu, og á sama tíma koma menn með þennan niðurskurð. Ef Jóhann Sigurjónsson kemst upp með að kjafta Einar K. til þá verður sjávarútvegur ekki stundaður á Íslandi mikið lengur.“ 

Enn áfall fyrir útveginn

Arnar Sigurmundsson, formaður Samtaka fiskvinnslustöðva, segir að ákvörðun sjávarútvegsráðherra komi ekki á óvart, því ljóst hafi verið hvert stefndi.

Mikill niðurskurður í sjávarafla til viðbótar við þann niðurskurð, sem hafi verið í þorski, séu vonbrigði. Engu að síður sé skynsamleg sú leið sem ráðherra valdi, að halda sig nær þeim tölum sem hann hafði í fyrra og taldi, og telji, óhætt að miða heildaraflann við á næsta fiskveiðiári, auk þess sem síldarkvóti geti aukist. Hefði verið farið eftir tillögum Hafrannsóknastofnunar hefði það leitt til lokunar margra fyrirtækja. Arnar segir að það að þurfa að búa áfram við 130 þúsund tonna þorskafla verði enn eitt áfallið fyrir sjávarútveginn og of langt hafi verið gengið í niðurskurðinum í fyrra. steinthor@mbl.is

Ekki hlustað á sjómenn

Arthur Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda, segir að þorskurinn sé stóra málið. Síðan 2005 hafi Landssambandið lagt áherslu á að gefinn yrði út um 220 þúsund tonna jafnstöðuafli og ástandið skoðað að nokkrum árum liðnum, en bilið sé enn mikið.

„Almennt telja smábátaeigendur að ástand þorskstofnsins sé prýðilegt og það er mikil og góð veiði á stórum svæðum, en á sama tíma reynir Hafró að telja mönnum trú um það að það sé enginn fiskur í sjónum,“ segir Arthur. „Ég hygg að vísindi Hafrannsóknastofnunar séu eina vísindagreinin í allri mannkynssögunni sem rembist eins og rjúpan við staurinn við að afsanna langvarandi reynslu manna á sama sviði og hún er að rannsaka,“ bætir hann við.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert