Allar fasteignir á landinu munu fá staðfang og verður það notað í stað heimilisfangs í mörgum kerfum. Samræma þarf skráningu staðfanga milli opinberra aðila. Kallar þetta á endurskoðun póstnúmerakerfisins. Landskrá fasteigna sem Fasteignamat ríkisins heldur verður samþætt við þjóðskrá.
Skráning heimilisfangs getur verið mismunandi eftir því hvort um er að ræða skráningu hjá til dæmis Þjóðskrá og svo Fasteignamati ríkisins. Þetta veldur ýmsum vandræðum í samkeyrslu upplýsinga og getur verið áhættuþáttur ef kallað er á aðstoð Neyðarlínunnar. Hjá fasteignamatinu er um þessar mundir verið að vinna að gerð samræmdrar staðfangaskrár fyrir Ísland sem allir hagsmunaaðilar geti nýtt sér. Skránni verður viðhaldið af einum aðila og samræmdar reglur verða settar um hvernig haga eigi stofnun og skráningu nýrra staðfanga. Samkeyrsla upplýsinga á grundvelli staðfanga verður þá líka tryggð.
Tryggvi Már Ingvarsson, deildarstjóri Landupplýsingadeildar hjá Fasteignamati ríkisins, hefur umsjón með verkefninu af hálfu stofnunarinnar. „Við erum að vinna í því að byggja upp staðfangaskrá núna. Í framtíðinni munu byggingarfulltrúar skilgreina staðföng um leið og fasteign er tekin út, gefa henni einkvæmt heiti og hnitsetja. Þessu verður fylgt eftir með reglugerð,“ segir Tryggvi.
Tryggvi segir að mikilvægt sé að heitin verði einkvæm innan hvers svæðis þar sem þau eiga ein og sér að duga neyðarþjónustu til þess að vita strax hvert nákvæmlega eigi að senda aðstoð. Eftir sameiningu sveitarfélaga er sérlega mikilvægt að fara yfir þessi mál þar sem sömu nöfnin koma iðulega oft við sögu, til að mynda séu fjórar Túngötur í Fjarðarbyggð og algengt bæjarnafn eins og Hóll komi jafnvel oft fyrir innan sama sveitarfélags víða um land.
Unnið er að því að hanna nafnakerfi sem gerir staðföng einkvæm innan svæða og er það talsverð áskorun, segir Tryggvi. Póstnúmerasvæði flækja að auki málið því afmörkun þeirra rímar ekki við afmörkun sveitarfélaga og mörkin skarast víða. Samhliða gerð nýja staðfangakerfisins væri því æskilegt endurskoða póstnúmerakerfið en það á alveg eftir að skoða.
Tryggvi segist reikna með því að hægt verði að nota núverandi fasteignaheiti óbreytt sem staðfang fasteignar í 70-80% tilvika. Skoða verði sérstaklega þær fasteignir sem eftir verða sem eru til dæmis þegar mörg staðföng finnast innan sömu fasteignar. Þarna má nefna Háskóla Íslands sem hefur eitt fasteignanúmer en hefur margar byggingar sem hver og ein þarf að fá nýtt staðfang.
Misræmi er oft að finna í skráningu milli stofnana, segir Tryggvi. Sem dæmi má nefna að samkvæmt Landskrá fasteigna eru fasteignaheitin Fljótsbakki 1 og 2 skráð en í Þjóðskrá býr þetta sama fólk einfaldlega að Fljótsbakka. Eins getur verið ósamræmi milli opinberra skráa hvað varðar stafsetningu, styttingu heita, notkun rómverskra eða arabískra tölustafa í bæjarnúmerum o.s.frv. Götuheitið 17. Júní torg í Garðabæ er til að mynda gott dæmi sem er skráð með mismunandi hætti víða. Þetta sé nauðsynlegt að samræma. Verkefnið er hins vegar stórt og fyrirséð að það þurfi nokkur ár til að fullkomið samræmi verði.
Átaksverkefni verður hrint af stað að sögn Tryggva sem miðar að því að safna öllum staðföngum á einn stað og leysa úr öllu misræmi. Það yrði þá einn aðili sem héldi utan um gögnin og síðan myndu aðrir aðilar, svo sem Neyðarlínan, Þjóðskrá, sveitarfélög og einkaaðilar fá lifandi aðgang að þeim í gegnum vefþjónustu. Þannig væri tryggt að allir aðilar notuðu sömu gögn.
Líklegt þykir að núverandi öryggisnúmer sumarhúsa muni smám saman detta út. Sömuleiðis verður það krafa í nýjum sumarhúsahverfum þar sem göturnar bera heiti og húsin fá númer að fólk merki húsin vel. Ef númeringin er innan svæðis, eins og oft er á sumarhúsasvæðum, þá verður ennfremur að merkja vel þar sem keyrt er inn á svæðin.
Í gagnagrunni Fasteigmats ríkisins eru skráð um 115.000 fasteignaheiti. Þar af hefur stofnunin hnitsett aðgengi að um 90.000 eignum, það eru 94% skráðra íbúða, 85% sumarhúsa og 77% atvinnuhúsnæðis. Mun þessi gagnagrunnur verða uppistaðan í þróun staðfangaskrár.
Hægt er að skoða hvort fasteignaheiti hefur verið hnitsett á vef FMR. Allar athugasemdir eru vel þegnar, hvort sem er upplýsingar um staðsetningu óhnitsettra eigna eða leiðrétting á því sem þegar hefur verið skráð.