Flug fært frá Akureyri til Egilsstaða

Iceland Express
Iceland Express mbl.is

Flugferðir Iceland Express milli Akureyrar til Kaupmannahafnar næstu helgi munu færast til flugvallarins á Egilsstöðum. Ástæðan er sú að verið er að lengja og malbika Akureyrarflugvöll og geta stórar vélar ekki lent þar. Annað áætlunar- og leiguflug á hinsvegar ekki að raskast en í því eru notaðar minni vélar. Aðeins um mánuður er liðinn síðan Iceland Express hætti flugi milli Egilsstaða og Kaupmannahafnar þar sem eftirspurnin var undir væntingum.

Að sögn Matthíasar Imsland, forstjóra Iceland Express, er Egilsstaðaflugvöllur nálægastur þeirra flugvalla sem unnt er að lenda stórri vél á. Flugfélagið mun næstu helgi borga rútur undir Akureyringa sem flytja þá til Egilsstaða. Flogið verður á sama tíma og venjulega en eina breytingin er sú að Akureyringarnir verða að leggja töluvert fyrr af stað frá heimilum sínum.

Matthías segir ákvörðunina um að félagið megi ekki fljúga frá Akureyrarflugvelli um helgina koma frá flugmálayfirvöldum. Vonast hafi verið til að ekki yrði af þessu en nú hafi það verið endanlega staðfest að völlurinn verður lokaður. „Það er ekkert sem við getum gert.“

Matthías reynir þó að sjá jákvæðu hlið málsins en hún sé sú að mjög hátt hlutfall í vélum félagsins þessa helgi séu íbúar Fjarðabyggðar. „Þetta er því minni röskun en ella. Það eru stórir hópar af krökkum að fara á íþróttamót í Danmörku einmitt þessa helgi svo það er mjög gott en auðvitað leiðinlegt þegar svona er og ekki í okkar höndum. Flugmálayfirvöld taka ákvörðun um að fara í framkvæmdirnar á þessum tíma. Við myndum lenda þarna ef við gætum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert