Löng grein birtist í franska dagblaðinu Le Monde í dag um ísbjarnamálið hérlendis í júní. Talað er við sérfræðinga á ýmsum sviðum, til dæmis danska yfirdýralækninn sem kom vegna seinni ísbjarnarins, Carsten Grondahl, umhverfisráðuneytið og Þór Jakobsson á Veðurstofu Íslands.
Umfjöllunin er nokkuð ítarleg. Sagan er rakin í heild sinni og talað við sérfræðingana sem útskýra hvernig staðið geti á þessu og hvort rétt hafi verið brugðist við. Sérstök áhersla er lögð á afleiðingar hlýnunar jarðar og hvort það sé ekki líklegt að fleiri birnir leggi leið sína hingað.
Að auki er tekinn annar vinkill á málinu og í annarri grein er talað við grænlenskan veiðimann sem talar um líf sitt og lýsir aðstæðum á Grænlandi.
Hér er greinin á vef Le Monde.