„Ertu nú alveg viss um að þér gagnist nokkuð að tala við mig, frystihúsakerlingu í 40 ár? Verður þá ekki fiskilykt af Mogganum?“ Þannig var viðkvæðið hjá Sigríði Friðriksdóttur þegar blaðamaður óskaði eftir spjalli við hana, en hún vildi ekki meina að hún hefði frá neinu merkilegu að segja þrátt fyrir að eiga hvorki meira né minna en 100 ára afmæli í dag.
Hún sættist þó á að segja upp og ofan af langri ævi og segir að oftast nær hafi ekkert komist að nema eitt. „Það var ekkert nema fiskur í Eyjum, allt snerist um fisk bæði vetur sem sumar og þetta var tómt puð,“ segir Sigríður, en hún átti langa starfsævi við fiskvinnslustörf og fór það orð af henni að hún væri margra manna maki við handflökun. Aðspurð vill hún þó ekki staðfesta það og gerir lítið úr eigin vinnusemi; „en ef þig langar að vita eitthvað um mig þá ættirðu að tala við einhvern annan en mig. Það kannast allir við hana Siggu Friðriks.“
„Þeir komu þrír sjeffar úr bænum, og þá er maður af Akureyri, Bassi nefndur, fyrir utan og þeir spyrja með miklu veldi hver hafi eiginlega umsjá með síldinni hér. „Hún Sigga Friðriks sér um það,“ svaraði Bassi.“ Segir Sigríður að þá hafi eftirlitsmönnunum orðið bilt við og hváð: „Og trúið þið henni fyrir því?“ Þeir hafi þá ekki séð ástæðu til að koma inn og ræða við hana um verkstjórnina. „Manni leið bara eins og glæpakvendi, en svona voru karlarnir í þá tíð. En þær eru nú frekar farnar að mala þá undir sig núna, konurnar, ég held það nú.“
Sigríður ber hins vegar yfirmanni sínum hjá Íshúsinu, Einari „ríka“ Sigurðssyni góða söguna og segir að betri atvinnurekandi hafi hvergi fundist, enda hafi vinnuandinn verið með eindæmum góður. „Hann tók allan hópinn, árið 1940, og fór með okkur á þremur bátum upp undir fjöllin. Þar var slátrað lömbum, þar voru sett niður tjöld og slegið til veislu. Hann var góður við starfsfólkið.“
Sigríður bjó í Vestmannaeyjum fram til gosársins 1973, en flutti þá með eiginmanni sínum, Halldóri Elíasi Halldórssyni til Reykjavíkur. „Gosið fór ógurlega illa með mig, húsið mitt fór undir hraun og hús sonar míns líka. Svo var ég afar ósátt við það hvernig bærinn var skipulagður eftir gosið og færður vestur á hamar og ákvað að þangað skyldi ég aldrei fara.“ Sigríður hefur því búið í Reykjavík alla tíð síðan og kunnað vel við sig, þótt ekki hafi verið litið upp til þeirra sem unnu í fiski að hennar sögn. „Fólk hafði viðbjóð á fiskilyktinni, og hún er ekkert sérstaklega góð ég skal viðurkenna það, en þetta var lifibrauð þjóðarinnar á þessum tíma. Ég keypti mér íbúð í Efstalandi 13 og þar var ein frúin, ógurlega fín, sem fitjaði upp á nefið og sagði „það er fiskilykt í ganginum hér núna.“ Þá glotti ég nú bara og sagði „jah, hún getur varla verið af mér, því ég er búin að vera þrjá mánuði hér í höfuðborginni“.“
Eyjamaður af lífi og sál
Í Eyjum bjó hún næstu 55 árin. Hún giftist Halldóri Elíasi Halldórssyni sjómanni og byggðu þau sér hús á Helgafellsbraut 23 þar sem þau bjuggu fram að gosi árið 1973, en fluttu þá til Reykjavíkur. Halldór lést árið 1975 en Sigríður bjó áfram á heimili þeirra í Efstalandi 12 til ársins 2004 þegar hún flutti á Hrafnistu. Hún segist þó alla tíð hafa litið á sig sem Eyjamann. Sigríður á einn son, Jón Berg Halldórsson, fæddan 1935.