Meirihluti Sjálfstæðisflokksins og Frjálslyndaflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur var í minnihluta á fundum menntaráðs og skipulagsráðs í gær. Á fund skipulagsráðs voru mættir þrír fulltrúar minnihlutans auk eins áheyrnarfulltrúa en aðeins tveir af fjórum fulltrúum meirihlutans. Sama staða var í upphafi fundar hjá menntaráði en þriðji fulltrúi meirihlutans mætti eftir að fundur hófst.
Hanna Birna Kristjánsdóttir formaður skipulagsráðs segir að þetta eigi sér eðlilegar skýringar. „Við erum komin fram í júlí og það eru margir í sumarleyfi auk þess sem boðuð voru forföll á síðustu stundu,“ segir hún og bætir við „Fundurinn var engu að síður löglegur og allt unnið í góðu samkomulagi eins og jafnan.“