Slökkviliðsmenn á vélhjólum

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur tekið í notkun tvö sérútbúin vélhjól til þess að tryggja enn skjótari viðbrögð en ella við slysum og eldsvoðum.

Hjólin nýtast að sögn vel sem undanfarar og fyrsta aðstoð á vettvangi slysa og eldsvoða þar sem stærri tæki eiga erfiðara um vik, til dæmis þar sem mannmergð er og þung umferð.

Verslunin Nítró flutti hjólin inn fyrir SHS en þau eru sérstaklega búin til þess að slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn geti veitt fyrstu aðstoð á vettvangi.

SHS hefur áður notað vélhjól í eigu einstakra starfsmanna við sérstök tilefni. Í fyrra fór slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður til dæmis um á vélhjóli á menningarnótt og helstu ferðahelgum ársins. Vélhjól var einnig notað í tengslum við aðgerðir vörubílstjóra fyrr á þessu ári, afmæli Hafnarfjarðarkaupstaðar og tónleika Sigurrósar og Bjarkar á dögunum.

Í ljósi góðrar reynslu af notkun vélhjóla ákvað SHS að leita tilboða í hentug hjól og tók tilboði Nítró sem bauð tvö Kawasaki-hjól með 650 cc vél á mjög hagstæðum kjörum. Á þeim er allur búnaður til forgangsaksturs og búnaður til endurlífgunar, svo sem súrefni, hjartastuðtæki, sáraumbúnaður, búnaður til að setja upp vökva og fleira. Einnig er á þeim slökkvitæki með sex kílóum af léttvatni.
 
SHS hefur ítrekað lent í aðstæðum þar sem slökkvi- og sjúkrabílar eiga erfitt með að komast leiðar sinnar vegna mannmergðar eða umferðarþunga á höfuðborgarsvæðinu og í  nágrenni þess. Vélhjólin verða staðsett í slökkvistöðinni í Skógarhlíð í Reykjavík og verða tiltæk allan sólarhringinn. Þegar slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður á vélhjóli kemur fyrstur á vettvang verður hlutverk hans meðal annars að meta þörf fyrir frekari aðstoð.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert