Stolnar felgur komnar í leitirnar

Bíllinn eftir að búið var að stela dekkjum og felgum.
Bíllinn eftir að búið var að stela dekkjum og felgum. Páll Stefánsson

Felgur þær og dekk sem stolið var af bíl ljósmyndarans Páls Stefánssonar í fyrradag skiluðu sér til eigandans í dag. Búið var að þrífa felgurnar og undirbúa fyrir sprautun er lögreglan fann þær.

Það var klukkan korter í átta á þriðjudagsmorguninn að lögreglan bankaði upp á hjá Páli Stefánssyni ljósmyndari og tilkynnti honum að bíllinn hans, Volkswagen GTI, stæði uppi á múrsteinum á bílastæðinu fyrir framan húsið. Búið var að fjarlægja dekk og forláta felgur sem voru býsna sérstakar.

„Það eru fjórar rær sem halda þeim og svo er ein sem á þarf sérstakan lykil til að opna. Þjófurinn hefur greinilega haft þannig lykil með sér sem segir mér að þetta hefur verið pantað,“ segir Páll.

Páll komst að því að dekkin og ekki síst felgurnar voru ótryggðar því kaskótrygging bílsins nær ekki yfir þessa hluti. Sá hann fram á um 600 þúsund króna tjón.

Það sem gerði verknaðinn enn verri var að atburðurinn varð á 17 ára afmælisdegi dóttur Páls og ætluðu þau niður á lögreglustöð einum og hálfum tíma síðar að sækja ökuskírteinið hennar.

Páll bauð fundarlaun fyrir felgurnar en ekki kom til þess að hann þyrfti að greiða þau. Klukkan fimm í dag fékk hann einkar ánægjulegt símtal frá lögreglunni.

„Þeir hringdu til að segja mér að felgurnar væru fundnar, algerlega óskemmdar,“ segir Páll himinlifandi. Búið var að þrífa felgurnar afspyrnu vel að sögn Páls og ætlaði hinn nýi ólöglegi eigandi að mála þær svartar svo þær þekktust síður.

„Nú er búið að skella þessu undir bílinn og dóttirin getur farið í bíltúrinn sinn. Ég er afskaplega þakklátur fyrir hversu vel gekk að ná felgum og dekkjum til baka,“ segir Páll að lokum.

Karlmaður er í haldi lögreglu vegna málsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert