Þrengingar við Háaleitisbraut

Umferðaröryggi verður bætt við Háaleitisbraut.
Umferðaröryggi verður bætt við Háaleitisbraut. mbl.is/ÞÖK

Tuttugu milljónum verður veitt til að leggja sveigju á Háaleitisbraut í Reykjavík og þrengja hana með það fyrir augum að hægja á umferð og auka öryggi vegfarenda. Tíu milljónum verður sömuleiðis veitt til að auka umferðaöryggi í grennd við Laugalækjaskóla á þessu og næsta ári.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir: „Borgarráð samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu borgarstjóra um að veita 30 mkr. til að auka umferðaröryggi í Háaleitishverfi og Laugardal. Upphæðin skiptist með þeim hætti að 20 milljónir renni til aðlögunar 30 km svæðis á Háaleitisbraut árið 2008. Tíu milljónir renni til aðgerða í því skyni að lækka umferðarhraða umhverfis Laugalækjaskóla á árunum 2008 til 2009.

Frumhönnun á þrengingu og sveigju í því skyni að lækka umferðarhraða á Háaleitisbraut liggur fyrir.

Reykjavíkurborg hefur leitað víðtæks samráðs við íbúa í borginni undir yfirskriftinni 1, 2 og Reykjavík á árinu. Íbúar færðu ábendingar inn á sérstakan ábendingavef, kom þeim á framfæri við stýrihóp í hverfunum eða við borgarstjóra á sérstökum samráðsfundum með íbúum sem haldnir voru í hverfum borgarinnar.

Af innkomnum ábendingum er ljóst að umferðaröryggi brennur hvað mest á borgarbúum og má í því sambandi nefna að alls snúa 909 ábendingar eða 41,8 % allra ábendinga að götum, gangstéttum og samgöngum.

Hátt hlutfall ábendinga frá íbúum í Háaleiti og Laugardal snýr að umferðaröryggi. Með tillögu sinni vill borgarráð koma til móts við óskir íbúa í þessum hverfum um aukið öryggi, annars vegar með aðlögun 30 km svæðis á Háaleitisbraut og hins vegar með aðgerðum í því skyni að lækka umferðarhraða við Laugalækjaskóla. 

Borgarstjóri lagði ennfremur fram tillögu í borgarráði í apríl sl. þar sem umhverfis og –samgönguráði er falið að gera tillögur um fjölgun 30 km svæða í íbúðarhverfum.  Jafnframt að gerð verði áætlun um fjölgun mislægra göngutengsla yfir umferðaræðar. Skila skal tillögunum í ágúst á þessu ári."


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert