Ákærður fyrir skattalagabrot

Jón Ólafsson
Jón Ólafsson

Ríkislögreglustjóri hefur gefið út ákæru á hendur Jóni Ólafssyni vegna eigin skattskila upp á rúmar 361 milljón króna. Um er að ræða undanskot á tekjuskatti upp á rúmar 155 milljónir, fjármagnstekjuskatt upp á tæpar 203 milljónir og eignarskatts upp á rúmar 3 milljónir króna.

Auk Jóns eru Hreggviður Jónsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Norðurljósa og Íslenska útvarpsfélagsins, Ragnar Birgisson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Skífunnar, og Símon Ásgeir Gunnarsson, endurskoðandi, ákærðir af ríkislögreglustjóra.

Í ákæru ríkislögreglustjóra kemur meðal annars fram að Jón er ákærður fyrir meiriháttar brot gegn skattalögum með því að hafa skilað röngum skattframtölum á árunum 1999-2002. Meðal brota sem Jón er ákærður fyrir er að hafa vantalið greiðslur launa frá Skífunni, Spori, Fjölmiðlun, og Íslenska útvarpsfélaginu. Vantalin bifreiðahlunnindi, vantalin persónuleg útgjöld sem Skífan og Íslenska útvarpsfélagið greiddu fyrir hann og vantaldar tekjur af kaupum á 10% eignarhlut af syni sínum í Skífunni á undirverði. Vantalinn söluhagnaður af 50% eignarhlut í Spori. Jón er einnig ákærður fyrir að hafa ekki greitt eignaskatt af tveimur fasteignum í Lundúnum og einni í Cannes í Frakklandi. Jón er ákærður fyrir að hafa vantalið tekjur vegna greiðslu Íslenska útvarpsfélagsins á launum ráðskonu hans í Lundúnum. 

Ragnar er ákærður fyrir meiriháttar brot gegn skattalögum með því að hafa skilað röngum skattframtölum á árunum 1999-2001 þar sem hann vantaldi tekjur sínar sem hann þáði frá Skífunni í formi risnu, endurmenntunarstyrkja og launabónusa, alls 4,9 milljónir króna. Hann er jafnframt ákærður ásamt Jóni fyrir brot á skattalögum í störfum sínum fyrir Skífuna.

Hreggviður er ákærður fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum með því að hafa skilað röngum skattframtölum á árunum 1998-2002 þar sem hann vantaldi tekjur sínar sem eru skattskyldar, svo sem bifreiðastyrk,  tekjur sem var gefið heitið endurmenntunarkostnaður en voru persónuleg útgjöld og hlutabréf sem hann fékk frá Íslenska útvarpsfélaginu, alls 24,2 milljónir króna.

Jón Ólafsson, er ákærður sem stjórnarformaður og Hreggviður Jónsson, sem framkvæmdastjóri Norðurljósa,  fyrir meiriháttar brot gegn skattalögum með því að hafa í störfum sínum fyrir Norðurljós látið undir höfuð leggja að skrá félagið á launagreiðendaskrá, standa skil á skilagreinum staðgreiðslu opinberra gjalda fyrir það og halda eftir á árunum 1999-2001, og standa skil á staðgreiðslu opinberra gjalda af launum starfsmanna félagsins. 

Jón er ásamt Símoni, sem endurskoðanda, og Hreggviði, sem framkvæmdastjóra Íslenska útvarpsfélagsins fyrir brot á skattalögum vegna rekstrar Íslenska útvarpsfélagsins. Eru þeir ákærðir fyrir að hafa skilað röngum skattframtölum fyrir Íslenska útvarpsfélagið og vantalið tekjur félagsins og oftalið frádráttarbær gjöld, um 632,8 milljónir króna, og hafa með þessu komið félaginu undan greiðslu tekjuskatts með því að skattstofnar þess urðu of lágir sem þessu nam og uppsafnað tap í rekstri sem fluttist milli ára var oftalið. 

Brot fjórmenninganna teljast, samkvæmt ákæru, varða við brot á hegningarlögum og krefst ríkislögreglustjóri þess að þeir verði dæmdir til refsingar fyrir brot sín.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka