Fjölskyldu fleygt úr landi

Atieno með Fidel, mánaðargamlan son hennar og Pauls
Atieno með Fidel, mánaðargamlan son hennar og Pauls mbl.is/Árni Sæberg

„Ég vona að Paul komi aftur til Íslands því hér þekkjum við margt fólk. Ef hann verður á Ítalíu fer ég þangað,“ segir Rosemary Atieno Odhiambo, eiginkona Paul Ramses sem sendur var til Ítalíu í gær.

Hún segist ekki vita hvar hann sé niðurkominn og er uggandi yfir að hann verði sendur frá Ítalíu til Keníu því þá hittist þau ekki aftur því hann sé á dauðalista.

Forsaga málsins er sú að Ramses sótti um pólitískt hæli hérlendis en Útlendingastofnun úrskurðaði að ekki bæri að fjalla um málið hér þar sem Ramses hefði ítalska vegabréfsáritun. Bréf þess efnis barst þeim hjónum hins vegar ekki fyrr en við handtökuna á miðvikudag, en þó er það dagsett 1. apríl síðastliðinn. Katrín Theódórsdóttir, lögmaður Ramses, staðfestir að þetta hafi ekki verið tilkynnt og segir það gróft mannréttindabrot. Að auki hafi stjórnvöld með þessu stíað fjölskyldunni í sundur því fjallað verði um mál þeirra hjóna í sitthvoru landinu.

Odhiambo hefur ekki dvalarleyfi hér á landi og er nú reiknað með því að henni og syni þeirra, Fídel Smára, verði vísað úr landi á næstu dögum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert