Heilsugæsluvakt verður lokuð utan dagvinnu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, HSS, frá og með 16. júlí. Sjúklingum er vísað á læknavaktina í Reykjavík og á slysadeild LSH.. Ástæðan er skortur á fjármagni til reksturs.
Læknir verður á neyðarvakt á HSS og mun sinna neyðartilvikum. Ef neyðartilfellli ber að höndum á að hringja strax í 112, sem hefur samband við lækni á neyðarvakt.
Hraðmóttaka heilsugæslunnar hefur verið lokuð frá 10. júní en sú þjónusta naut mikilla vinsælda og létti mjög á annarri starfsemi heilsugæslunnar.
Í yfirlýsingu frá stofnuninni segir að á árinu 2008 hafi HSS fengið 1.609.800.000 kr. eða 78.734 kr. á íbúa miðað við 20.446 íbúa. Þegar litið sé á fjárveitingar til átta annarra sambærilegra stofnana miðað við íbúafjölda sé þessi upphæð langlægst án frekari skýringa. Sú heilbrigðisstofnun sem næst kom fékk 101.013 kr. á íbúa og sú sem mest fékk var með 200.976 kr. á íbúa. Vegna þessara erfiðleika í rekstri hafi stofnunin á undanförnum mánuðum reynt að fá leiðréttingar á fjárveitingum hjá heilbrigðisráðuneytinu án árangurs.
Sérstaklega eru fjárveitingar lágar á heilsugæslusviði. Ef HSS fengi jafnháa fjárhæð og sú stofnun sem næstlægsta upphæð fær, ætti hún að fá 450.000.000 kr. í viðbót á árinu 2008.
Þessar upplýsingar voru formlega kynntar í heilbrigðisráðuneytinu í mars síðast liðnum og síðan á fjölmörgum fundum til að freista þess að fá leiðréttingar þannig að HSS sæti að minnsta kosti við sama borð og sú stofnun sem næst minnst er úthlutað. Í yfirlýsingunni segir enn fremur að fullyrða megi að HSS hafi verið að veita jafngóða þjónustu og samanburðarstofnanirnar fyrir 50-75% af því fjármagni sem þeim er úthlutað.
Ekki hafi tekist að fá leiðréttingu á þessari skekkju í fjárveitingum sem skapast meðal annars af mikilli og örri íbúaaukningu á Suðurnesjum á undanförnum árum. HSS geti því ekki lengur haldið uppi lögbundinni og tilskilinni starfsemi og verður að bregðast við með aðgerðum sem snúa að samdrætti í heilsugæslu.
Stjórnendur HSS hafa fundað að undanförnu til að komast að niðurstöðu um hvar sé hægt að draga úr þjónustu svo minnstur skaði verði.