Kvíða kreppu og finnst allt hækka nema launin

mbl.is

„Það hefur verið mismunandi hvað við borgum mikið af húsnæðisláninu okkar á mánuði,“ segir Kristinn Þeyr Magnússon kvikmyndatökumaður. „Við erum að borga mun meira en greiðsluáætlunin gerði ráð fyrir, en höfum áður einnig borgað mun minna, þrátt fyrir að hafa tekið tiltölulega lága upphæð að láni í erlendri mynt,“

„Ég er sammála því eldra fólki sem telur ótækt að tala um að nú sé kreppa,“ segir Rán Reynisdóttir sambýliskona hans.

Neysluhegðun og lífsstíll

„Kannski snýst þetta um neyslu fólks og lífsstíl,“ segir Rán sem nefnir að parið hafi selt annan bílinn og fengið sér hjól. „Svo er það matarkarfan, ég tel það vera mjög svo blóðugt að borga 9.000 kr. fyrir tvo poka í Bónus,“ segir hún og bætir við að allt hækki nema launin í dag. „Vinnudagarnir eru langir og það bitnar á fjölskyldunni.“

Flytja mögulega út

„Við vorum heppin því við keyptum fyrir löngu síðan, en þeir sem eru að kaupa núna eru í vondum málum, sérstaklega þeir sem hafa keypt sér húsnæði á erlendum lánum,“ segir Jóhanna Tryggvadóttir 26 ára hjúkrunarfræðingur.

Jóhanna segir að verð á matvöru haldi áfram að hækka í hvert skipti sem fjölskyldan verslar í matinn.

„Ég er farin að breyta innkaupunum verulega og er dauðfegin að barnið mitt er hætt á bleyju því þær eru fokdýrar,“ segir hún en bætir við að það harðni í ári á næsta ári þegar hún eignast sitt annað barn. „Þá verð ég ekki á fullum launum og get ekki ímyndað mér hvernig við munum ná endum saman.“

Jóhanna telur nær ómögulegt að fara í framhaldsnám hérlendis miðað við dýrtíðina og nefnir að fjölskyldan hugi að því að flytja hreinlega erlendis. „Við erum að hugsa um að flytja til Spánar, Danmerkur eða Svíþjóðar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert