Númerin klippt af hrörlegri rútu

Lögreglunni í Borgarnesi barst í kvöld tilkynning um báglegt ástand rútu.  Er að var gáð reyndist hún ansi hrörleg og voru númerin klippt snarlega af. Undirvagninn var allur skakkur og skældur og rútan engan veginn í ástandi til að vera á vegum landsins.

Rútan er í einkaeign og voru sex einstaklingar um borð. Hefur rútan verið kyrrsett í Borgarnesi og verður væntanlega dregin til skoðunar á morgun.

Lögreglan á Snæfellsnesi stöðvaði í kvöld ökumann, grunaðan um að aka undir áhrifum fíkniefna og reyndist svo vera. Lítilræði kannabisefna fannst í bílnum og gekkst farþegi við því að eiga efnið.

Fíkniefnahundur frá Reykjavík er lögreglunni í Borgarnesi og á Akranesi til aðstoðar um helgina og einnig er umferðardeild lögreglu höfuðborgarsvæðisins þeim til aðstoðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert