„Þetta mun hafa mikla þýðingu fyrir fjölmarga,“ segir Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður konunnar sem höfðaði mál gegn lífeyrissjóðnum Gildi. Niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur var sú að Gildi var óheimilt að draga frá örorkulífeyri konunnar þann örorkulífeyri og tekjutryggingu sem hún fær frá Tryggingastofnun ríkisins.
„Ég tel að dómurinn muni hafa þau áhrif að 14 lífeyrissjóðir sem breyttu samþykktum sínum fyrir 2-3 árum verði nú að gera upp síðasta tímabil að nýju fyrir u.þ.b. 2.000 öryrkja,“ segir Ragnar.
Spurður hvort dómurinn verði til þess að fleiri öryrkjar leiti réttar síns segir Ragnar að þessi eigi ekki að þurfa. „Þarna er komin afdráttarlaus afstaða dómsins. Að vísu á lífeyrissjóðurinn Gildi þess kost að áfrýja málinu til Hæstaréttar en fari málið á sama hátt þar þá er auðvitað út í hött fyrir lífeyrissjóðina að segja "Farið þið bara hver um sig í mál við okkur". Það kostar eins og maður getur ímyndað sér óhemjuvinnu og peninga, líka fyrir þá, þannig að þeir munu örugglega gera upp eftir slíkum dómi. Þeir bíða ekki eftir því að fá á sig málahrinu,“ segir Ragnar og er það hans skoðun að þessi dómur muni hafa gríðarmikla þýðingu fyrir fjölmarga.
Halldór Sævar Guðbergsson, formaður Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ), segir það hinsvegar ákveðin vonbrigði að málið hafi ekki verið unnið efnislega, eins og félagið hefði kosið, heldur á vanhæfni aðila í fjármálaráðuneytinu til að fjalla um það.
„Ég vonast til að þetta verði til þess að lífeyrissjóðirnir, félagsmálaráðherra og Öryrkjabandalagið reyni að setjast niður og leysa þessi mál samningslega frekar en að reka málið í dómstólum. Það er ekki óskastaða ÖBÍ að standa í dómsmálum daginn út og daginn inn,“ segir Halldór.
Hjá Gildi fengust þær upplýsingar að ákvörðun um áfrýjun yrði tekin síðar en til þess hefur Gildi 3 mánuði.