Ítalir veittu Paul Ramses vegabréfsáritun inn á Schengen svæðið og er það rangt að Ítalir beri ábyrgð á málinu vegna millilendinga þar í landi eins og ítrekað hefur komið fram. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Útlendingastofnun hefur sent frá sér vegna máls Ramses og fjölskyldu hans sem hefur verið mjög í umræðunni. Þar kemur fram að Ramses hafi ekki verið handtekinn á heimili sínu líkt og fram hefur komið.
Segir í yfirlýsingunni að þótt Útlendingastofnun
(ÚTL) leggi jafnan áherslu á að fjalla ekki opinberlega um mál þeirra
einstaklinga sem þar eiga erindi til afgreiðslu sé óhjákvæmilegt að gera grein
fyrir nokkrum staðreyndum og sjónarmiðum stofnunarinnar um mál Pauls Ramses og
fjölskyldu hans.
„Samkvæmt upplýsingum frá Paul ákváðu ítölsk yfirvöld að veita honum
vegabréfsáritun vegna þeirrar aðstöðu sem hann var í í heimalandi sínu. Þessi áritun gilti frá 12.01.2008 -
20.02.2008. Paul kom til Íslands um miðjan janúar.
Paul og eiginkona hans Rosemary voru boðuð til skýrslutöku hjá lögreglu
höfuðborgarsvæðisins 28.01.2008, að beiðni ÚTL dags. 25.01.2008, vegna gruns um
ólögmæta dvöl. Þar sýndi Paul Schengen-áritun útgefna af ítölskum yfirvöldum og
aðspurður kvaðst hann ætla að fara frá landinu í kringum 10.02.2008.
Paul sótti um hæli á Íslandi 31.01.2008 og þann sama dag var tekin af honum
hælisskýrsla hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins. Þar var honum gefinn 3 daga
frestur til að andmæla framsendingu beiðnar sinnar um hæli.
Hinn 11.02.2008 voru send tilmæli til Ítalíu, um að taka við beiðni Pauls um
hæli. Ítalir samþykktu beiðnina 31.03.2008. Grundvöllur þessa er að Ítalir
höfðu veitt Paul vegabréfsáritun inn á Schengen svæðið. Rangt er að Ítalir beri
ábyrgð á málinu vegna millilendinga þar í landi eins og ítrekað hefur komið
fram.
Hinn 26.03.2008 barst ÚTL greinargerð Katrínar Theódórsdóttur hdl., um að
umsókn Pauls um hæli yrði tekin til meðferðar á Íslandi. Frestur til þess að
skila inn greinargerð var liðinn en afstaða var tekin til hennar í ákvörðun.
Ákvörðun ÚTL um framsendingu hælisbeiðni og Pauls lá fyrir 01.04.2008.
ÚTL fékk staðfestingu frá Vinnumálastofnun 08.04.2008 um að Paul hefði verið að
störfum 15.03.2008 án tilskilinna leyfa.
Hinn 09.04.2008 var beiðni um birtingu ákvörðunar og flutning á grundvelli
Dublin II reglugerðar send til ríkislögreglustjóra (RLS).
Hinn 05.05.2008 boðaði RLS umsækjanda og Rauða Kross Íslands (RKÍ) til þess að
birta honum ákvörðun ÚTL með tíðkanlegum hætti. Paul mætti ekki og varð því
ekki af birtingu ákvörðunarinnar. Sama dag barst ÚTL bréf RKÍ þar sem fram
kemur að Rosemary, eiginkona Pauls, sé barnshafandi og ætti hún að verða
léttari eftir um tvær vikur. Vegna þessa var þess farið á leit við RLS sama dag
með símtali og tölvupósti að fresta framkvæmd ákvörðunar þar til Rosemary hefði
fætt barn þeirra.
Lögreglumaður hafði símasamband við Paul á þeim tíma þegar hann átti að vera
mættur. Hann var þá að eigin sögn staddur í skrifstofum RKÍ. Honum var tjáð að
ekki yrði af för hans úr landi að sinni þar sem ÚTL hefði ákveðið að fallast á
umrædda beiðni RKÍ um frestun þess að senda hann úr landi. Í þessu ljósi verður
að skoða yfirlýsingar um að Paul hafi verið alls ókunnugt um að til stæði að
senda hann úr landi á þessum grundvelli.
Barn umsækjanda fæddist 26.05.2008. Staðfesting þess efnis barst frá RKÍ til
ÚTL 29.05.2008 eftir beiðni frá ÚTL.
ÚTL sendi á ný beiðni á RLS um birtingu og framkvæmd ákvörðunar 03.06.2008 og
ítrekun sama efnis 25.06.2008.
RLS birti ákvörðun 02.07.2008 og tilkynnti að hún yrði framkvæmd 03.07.2008.
RLS sendi ÚTL tölvupóst vegna framkvæmdar birtingar og þar kemur fram, að
hringt hafi verið í umsækjanda og hann beðinn um að hitta lögreglumenn á
lögreglustöð, sem hann gerði. Það er því rangt sem ítrekað hefur komið fram, að
Paul hafi verið handtekinn á heimili sínu," að því er segir í yfirlýsingu frá Útlendingastofnun og birt er á vef stofnunarinnar.
Rosemary Ramses ólögleg á Íslandi
Þar kemur einnig fram að samkvæmt reglum Dyflinarsamningsins bera ítölsk yfirvöld ábyrgð á að fjalla um hælisumsókn mannsins.
Bæði í íslenskum lögum og í þeim reglum sem gilda um samvinnu þeirra
ríkja sem eru aðilar að Dyflinarsamstarfinu er heimilt að víkja frá
þessum almennu reglum. Slíkar undanþágur eiga t.d. við þegar menn eiga
fjölskyldu í öðru ríki en því sem ber almennt ábyrgð á að fjalla um
umsóknina.
Í því máli sem hér um ræðir, háttar svo til að Rosemary, eiginkona
Pauls, er stödd á Íslandi en hún er í ólöglegri dvöl. Samkvæmt
upplýsingum frá Katrínu Theódórsdóttur hdl. er Rosemary með dvalarleyfi
í Svíþjóð sem gildir til ársins 2012, en það veitir henni ekki rétt til
dvalar á Íslandi. Hún sótti um dvalar- og atvinnuleyfi á Íslandi á
árinu 2007 en var synjað. Síðan hefur hún ekki sótt um neins konar
dvalarleyfi hér á landi. Útlendingastofnun hlýtur að taka mið af því
hvort fólk er hér í löglegri dvöl eða ólöglegri. Ólögleg dvöl í landinu
veitir hvorki rétt til samvista né er hún til þess fallin að vera
grundvöllur undir undanþágur frá almennum reglum.