Fimmtíu mál komu til kasta lögreglunnar á Akranesi frá því á hádegi í gær þar til í morgun. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni eru um þrjú til fjögur þúsund manns samankomir á írskum dögum í bænum sem er svipaður fjöldi og í fyrra. Hins vegar er færra ungt fólk þar sem aldurstakmark er á tjaldstæðinu.
Að sögn lögreglu var talsvert um að vísa þurfti ungu fólki frá sem reyndi að tjalda á tjaldstæðinu. Eins þurfti að hafa samband við töluverðan fjölda foreldra og biðja þá að sækja börn sín og unglinga.
Fjórir voru teknir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna. Í einu tilvikinu fannst við leit í bifreiðinni eitthvað magn fíkniefna en fjögur fíkniefnamál komu til kasta lögreglunnar í gær og nótt. Að sögn lögreglu var í flestum tilvikum lítið magn gert upptækt. Tveir voru teknir fyrir akstur undir áhrifum áfengis.
Mikið var um ryskingar og pústra en tvær líkamsárásir komu til kasta lögreglu. Í annarri réðust tveir menn á þann þriðja og er sá að öllum líkindum nefbrotinn. Árásarmennirnir gista fangageymslur lögreglu.