Landmótun stöðvuð við Hamranes

Eins og sjá má er vegslóðinn engin smásmíði.
Eins og sjá má er vegslóðinn engin smásmíði. Jónatan Garðarsson

Útbreiðsla landmótunarstaðs ofan við Hamranes við Hafnarfjörð hefur verið stöðvuð. Vegslóði sem tengist jarðvegstippnum hafði þá farið yfir eina merka vörðu og var kominn að annarri. Sömuleiðis lá hann yfir land sem var innan vébanda Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og var búið að planta þar trjám sem nú hafa verið jörðuð. Skógræktarfélaginu finnst að hreinsa þurfi svæðið svo hægt sé að planta þar aftur.

Á síðasta fundi Skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar var ákveðið að stöðva þegar í stað útbreiðslu landmótunarstaðsins en í staðinn fyllt áfram annars staðar innan samþykktra marka hans. Var lögð fram því til stuðnings umsögn Fornleifaverndar ríkisins og  greinargerð Guðjóns Inga Eggertssonar, staðardagskrársfulltrúa bæjarins.

Á fundinum var jafnframt ákveðið að endurskoða umfang og útfærslu jarðvegstippsins ásamt samningum við Garðabæ um afnot af tippnum en notkun hans hefur farið langt fram úr áætlaðri notkun og koma nú um fjögur hundruð bílar á dag að tippnum til losunar. Áætlaður kostnaður vegna tippsins er nú kominn í 19 milljónir og er það fram úr kostnaðaráætlun.

Sömuleiðis var ákveðið að framvegis myndi eftirlitsmaður vera á svæðinu til að fylgjast með því að fólk fari að settum reglum.

Jónatan Garðarsson, varaformaður Skógræktarfélags Hafnarfjarðar, segir að plantað hafi verið í áföngum í svæðið á árunum 1980 – 1995. Var orðið fullplantað í svæðið og áttu plönturnar að fá að vaxa í rólegheitum og fá eins íslenskt yfirbragð og hægt var. Hluti þessa skógræktarsvæðis er nú komið undir jarðveg en erfitt er að meta hversu stór sá hluti er. „Við plöntuðum sérstaklega gróðri þarna sem fór vel við þann gróður sem fyrir var, lyng og holtagróður. Þess vegna var aðallega plantað víði og birki. Birkið var sérvalið svo þetta yrði sem náttúrulegast og var það bæði runnabirki og stakstæð tré sem við töldum að myndi spjara sig hvað best.“

Jónatan segir að megnið af landmótuninni sé inni á öskuhaugunum eins og ráð var gert fyrir en nú sé kominn vegslóði upp hlíðina og liggi hann yfir þeirra svæði. Það hefði enginn séð fyrir.

„Við gerðum samkomulag við bæinn 1980 sem var svo endurnýjað 1990. Síðan er gert nýtt skipulag fyrir þetta svæði 2004 en það var ekki borið undir okkur. Samt vitum við ekki betur en að samkomulag okkar við bæinn sé í fullu gildi.“

Jónatan segir að það sé lágmark þegar slíkar breytingar eru gerðar á skipulagi svæðis að láta hagsmunaðila vita. „Þá hefðum við getað flutt þessi tré. Það áttaði sig hins vegar enginn á því hjá bænum að tala við okkur. Þetta er ákveðin yfirsjón.“

Jónatan segir að skipulagið hafi aldrei verið samþykkt formlega í bæjarráði eða bæjarstjórn og þar af leiðandi aldrei farið opinberlega í neina umræðu eða kynningu á neinu stigi. Það hafi eingöngu verið rætt í Skipulags- og byggingarráði og kynnt á fundi Umhverfisnefndar í ársbyrjun 2004. Þar að auki hefði aldrei verið gefið út formlegt framkvæmdaleyfi sem er nauðsynlegt fyrir slíkar framkvæmdir. 

Það var skógræktarfélagið sem létu bæjaryfirvöld vita að verið væri að setja jarðveg yfir svæði félagsins og sömuleiðis var Fornleifavernd ríkisins láti vita af því að búið væri að setja veg yfir gamla vörðu sem þarna var og væri hann kominn að annarri. Þar sem framkvæmdum hefur verið hætt er henni borgið. Vörðurnar mörkuðu skilin milli Hvaleyrarlands og Áslands.

„Það hafa orðið þarna einhverjar skemmdir sem eru óafturkræfar en við gerum samt enga kröfu á hendur bæjarins. Við viljum heldur vinna að málinu með þeim, í fullri sátt. Það er samt mín skoðun að það beri að fjarlægja þennan vegarslóða og hreinsa upp svæðið svo hægt sé að planta þarna aftur.“

Guðjón Ingi Eggertsson sagði málið hafa verið afgreitt á sínum tíma í nefndum og ráðum eins og vera beri en af einhverjum ástæðum hafi samráð við skógræktarfélagið brugðist og því hafi málið farið svona. Menn hafi ekki áttað sig fyllilega á hver áhrifin yrðu.

„Það er inni í myndinni að mörk svæðisins verði endurskoðuð en hversu mikið er enn óákveðið. Sömuleiðis hvort þetta verður hreinsað. Vegna sumarleyfa eru fundir hjá ráðinu óreglulegir og ekki hægt að segja hvenær sú ákvörðun verður tekin,“ segir Guðjón.

Hann sagði að lokum að bæjaryfirvöld hefðu að sjálfsögðu á því mikinn hug að starfa í samvinnu við skógræktarfélagið að farsællegri lausn.

Jónatan Garðarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert