Sjö voru teknir af lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu grunaðir um ölvun við akstur í nótt. Einn þeirra gistir fangageymslur og bíður yfirheyrslu þegar runnið verður af honum. Viðkomandi ók á N1 bensínstöðina á Ártúnshöfða og braut rúðu og var framendi bifreiðarinnar kominn inn í verslunina áður en ökuferðinni lauk. Þegar öryggisvörður ætlaði að hafa tal af ökumanninum þá ók hann á brott. Hann var handtekinn skömmu síðar, grunaður um ölvun við akstur.
Einn er í haldi vegna ætlaðs fíkniefnamisferlis en um útlending er að ræða og því beðið eftir túlki áður en yfirheyrslur geta hafist yfir honum. Hann var með smáræði af fíkniefnum í fórum sínum er hann var handtekinn.
Tvær líkamsárásir voru tilkynntar til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í nótt, í báðum tilvikum var um útlendinga að ræða, hvort heldur sem það voru árásarmenn eða þolendur. Á Laugarvegi var maður laminn af samlöndum sínum og var hann fluttur á slysadeild með áverka í andliti. Kona var barin af samlanda sínum í Tryggvagötu þannig að hún lá óvíg eftir í götunni, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Var hún flutt á slysadeild með sjúkrabifreið.