„Ástandið er óviðunandi en við erum enn vongóð um að þetta verði eiðrétt,“ segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, um fjárskortinn sem plagað hefur Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS). Verulega hefur verið skorið niður í þjónustu þar undanfarið, eins og sagt var frá í gær, og stefnir í að vísa þurfi frá 9 af hverjum 10 sjúklingum sem leita á heilsugæsluna utan dagvaktar.
Árni segir bæjarstjórnina gera þá kröfu að íbúar Suðurnesja geti sótt grunnheilbrigðisþjónustu í sína heimabyggð, þótt ekki sé óeðlilegt að hluti þjónustunnar sé sóttur til Landspítala til að nýta þann búnað og þekkingu sem þar er til staðar.
Þess má þó geta að í upphafi árs gerði LSH samkomulag við fjögur nágrannasjúkrahús, þar á meðal Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, um að veita ríkari heilbrigðisþjónustu í heimabyggð til að létta álagið á LSH. Markmið þess samkomulags, sem heilbrigðisráðherra kallaði í janúar tímamót, virðist því ekki geta gengið eftir á meðan ekki er komið til móts við fjárþörf HSS.
„Þegar við sáum fyrst hversu ójafnt er skipt á milli landshluta töldum við að einhver misskilningur væri í tölunum, en ég hef sjálfur farið yfir þær með okkar fólki og það er ótvírætt að þarna er mikil mismunun,“ segir Árni. Hluti ósamræmisins geti skýrst af örri fjölgun íbúa á svæðinu, en þegar sú breyta hafi verið tekin með í reikninginn standi enn eftir óútskýrður munur sem þurfi að leiðrétta.
Að sögn Gunnars Svavarssonar, formanns fjárlaganefndar, eru mál HSS ekki enn komin frá heilbrigðisráðuneytinu inn á borð fjárlaganefndar og er ekki von á aðgerðum fyrr en frumdrög að fjáraukalögum birtast í október.