Rólegra á Landsmóti í nótt en búist var við

mbl.is/Július

Á milli átta og tíu þúsund manns eru á Landsmóti hestamanna á Hellu, að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli. Lögreglan hafði í nægu að snúast en þrátt fyrir það gekk allt vel fyrir sig og nóttin rólegri en menn áttu von á. Tvær líkamsárásir komu til kasta lögreglu inni á mótssvæðinu en í hvorugu tilvikinu verður kært.

Þrír voru teknir fyrir ölvun við akstur og fjórir grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna. Öll málin komu upp fyrir utan mótssvæðið, að sögn lögreglu.

Við hefðbundið eftirlit á Suðurlandsvegi komu upp tíu fíkniefnamál þar sem fíkniefni fundust við leit í bifreiðum. Að sögn lögreglu er um talsvert mikið magn að ræða.

Lögreglan á Hvolsvelli sendi tvo í fangageymslur á Selfossi en einn gistir nú fangageymslu á Hvolsvelli en hann var tekinn við rúðubrot á Landsmótinu undir morgun. 

Gott veður er á mótssvæðinu, logn og hlýtt en sólarlaust. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert