Tíðindalítið hjá lögreglu í dag.

Hátíðir ganga vel og lögregla segir allt fara vel fram. Nokkrir hafa verið teknir fyrir að aka undir áhrifum og lítið er um slys og óhöpp.

Fyrr í dag varð eitt umferðaróhapp við Laufás á Akureyri. Tveir bílar, jeppi og fólksbíll, voru að koma úr sitthvorri áttinni en rákust á þar sem fólksbíllinn virðist hafa verið full innarlega á akreininni. Einhver meiðsl urðu á fólki. Þrír voru í öðrum bílnum og tveir í hinum og voru allir fluttir á sjúkrahús. Bílarnir eru báðir mikið skemmdir, sérstaklega jeppinn sem valt nokkrar veltur við áreksturinn.

Lögreglan á Akureyri segir bæinn annars fullan af prúðum einstaklingum sem eru mættir á fótboltamótin tvö sem þar eru í gangi, Pollamót Þórs og N1 mótið. Allt fari afar vel fram.

Á Akranesi þar sem hátíðin Írskir dagar fer nú fram hefur verið rólegt í dag að sögn lögreglu. Hafði hún þó afskipti af tveimur ökumönnum sem búið var að svipta ökuleyfi áður og voru þeir sektaðir. Að auki var einn tekinn, grunaður um að keyra undir áhrifum ávana- og fíkniefna.

Í Vestmannaeyjum hefur verið rólegt og gott í dag þrátt fyrir talsverðan fjölda á Goslokahátíð. Einn var tekinn fyrir ölvun við akstur en annars hefur allt farið afar vel fram.

Við skipulagt eftirlit í morgun stöðvaði lögreglan á Selfossi einn ökumann sem reyndist ölvaður og annan sem grunaður er um akstur undir áhrifum fíkniefna. Umferðin er þung að sögn lögreglunnar en allt gengur mjög vel. Eitt smávægilegt umferðaróhapp var tilkynnt en enginn slasaðist.

Lögreglan á Hvolsvelli sagði nokkurn eril hafa verið í dag þótt allt færi mjög vel fram á Landsmóti hestamanna á Hellu.

Í Þórsmörk var tilkynnt um ógætilegan akstur tveggja bíla. Annar bíllinn var stöðvaður á leið úr mörkinni og er hann grunaður um ölvun.

Tvisvar var tilkynnt um faratæki á Rangánni. Í annað skipti var um gúmmíbát að ræða og sæþotu í hitt skiptið. Varasamt er að vera á Rangánni á þessu svæði þar sem foss er rétt fyrir neðan. Lögregluna grunar að fólk hafi verið að reyna að svindla sér inn á mótssvæði Landsmótsins.

Fyrir skömmu fékk svo lögreglan tilkynningu um þjófnað. Erlendur ferðamaður hafði brugðið sér inn í Kjarval á Hvolsvelli til að versla og skilið eftir bakpoka sinn fyrir utan. Þegar hann kom aftur út var búið að stela bakpokanum. Í honum var bæði farseðill og vegabréf mannsins svo missirinn er afar slæmur.

Ferðamanninum er illa brugðið og taldi hann sig vera í öruggu samfélagi þar sem óhætt væri að skilja eftir eigur sínar litla stund.

Bakpokinn er stór, grár og blár Vortex poki. Lögreglan á Hvolsvelli biður þá sem kunna að hafa upplýsingar um pokann eða innihald hans að hafa samband.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert