Bjarki Friis er íslenskur í móðurætt. Hann er stöðvarstjóri í Meistaravík á Norðaustur-Grænlandi. Árin 2005-2007 var hann í Síríus-varðflokknum sem hefur eftirlit með þjóðgarðinum á svæðinu og gætir þar hagsmuna danska ríkisins. Hann fetar þar í fótspor föður síns sem var í Síríus-varðflokknum á 7. og 8. áratugnum.
Einungis ókvæntir, ungir karlmenn eru teknir inn í Síríusflokkinn og gegna þjónustu í 26 mánuði samfleytt. Eina fríið er ferð til tannlæknis í Reykjavík.
„Einu sinni, þegar við vorum nýkomnir í náttstað, fóru hundarnir að gelta og við félagarnir þutum út. Þá sáum við að stór hvítabjörn kom röltandi í áttina til okkar. Við skutum að honum neyðarblysum og loks sendi ég eitt í síðuna á honum.
Hann lét sem hann tæki ekki eftir því.
Björninn var aðeins 5-10 m frá okkur þegar ég sá mér ekki annað fært en að skjóta hann. En þá sneri bangsi við og rölti eitthvað út í auðnina þar sem hann hvarf.“
Síríus-varðflokkurinn var stofnaður árið 1950 og í honum eru 12 varðliðar og 100 sleðahundar.