Frekar rólegt yfir landinu

Fyrir utan höfuðborgarsvæðið, Suðurnes og Akureyri var frekar rólegt á landinu í nótt og fáir teknir fyrir ölvunarakstur eða önnur mál.

Í Borgarnesi voru þrír teknir fyrir ölvun við akstur og smávegis erill var vegna tjaldstæða sem öll eru full í Borgarfirði. Sagði lögreglan þó allt hafi gengið nokkuð vel fyrir sig.

Lögreglunni á Húsavík var í nótt tilkynnt um að alblóðugur maður hefði fundist fyrir aftan skemmtistaðinn Gamla Bauk. Var hann fluttur á heilbrigðisstofnunina til skoðunar og er ekki vitað um meiðsl. Ástæða árásarinnar er óþekkt og ekki er búið að kæra málið sem er í rannsókn. Þá tók lögreglan einn fyrir ölvunarakstur á Þórshöfn og annan á Húsavík.

Lögreglan á Selfossi tók einn fyrir ölvunarakstur en sagði allt hafa vel fram á þeirra svæði um nóttina.

Þá ber það helst til tíðinda úr Vestmannaeyjum að þar var allt tíðindalaust í nótt og fékk lögreglan ekki eitt útkall þrátt fyrir mikinn fjölda sem nú er á Goslokahátíð. Sagði hún að það væri að þakka góðri gæslu á hátíðarsvæðinu, góðri samvinnu allra aðila sem að hátíðinni koma og ekki síst einstaklega prúðum hátíðargestum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert