Læti á Suðurnesjum í nótt

Lögreglustöðin í Reykjanesbæ
Lögreglustöðin í Reykjanesbæ Af vef lögreglunnar

Nokkur erill var eftir miðnættið hjá lögreglunni á Suðurnesjum.  Talsvert var um kvartanir vegna hávaða og ölvunar í heimahúsum í öllum sveitarfélögunum á svæðinu. Ein líkamsárás varð kærð og átti hún sér stað á einum skemmtistaðanna. Bifreiðar voru skemmdar, bæði lögreglubifreið og bifreiðar við Baugsholt.

„Lögreglubifreið skemmdist er henni var ekið framhjá einum af skemmtistöðum Reykjanesbæjar við Hafnargötu, en ölvaður og æstur hælisleitandi kastaði í hana bjórflösku.  Sá var handtekinn og vistaður í fangageymslu.  Hann verður yfirheyrður síðar vegna málsins," samkvæmt dagbók lögreglu.

Foreldra beðnir um að sækja ölvuð ungmenni

Tilkynnt var um tvo drengi að skemma bifreiðar í Baugholti með því að ganga yfir þær.  Þeir náðu að komst undan, en eigandi einnar bifreiðarinnar hafði reynt að hlaupa þá uppi.  Vitað er hverjir drengirnir eru og verður haft tal af þeim síðar.  Lögreglan hafði síðan afskipti af tveimur félögum drengjanna sem einnig höfðu verið á staðnum, en þó ekki viðriðnir skemmdarverkin.  Voru þeir ölvaðir og höfðu nokkuð af áfengi meðferðis.  Þeir voru færðir á lögreglustöðina og foreldrum gert að sækja þá.

Þá var ölvaður maður handtekinn í Grindavík eftir ólæti.  Hann hafði verið að ógna mönnum með hníf og skemmdi bifreið.  Hann var vistaður í fangageymslu.

Snemma í kvöld var ökumaður bifreiðar handtekinn í miðbæ Keflavíkur.  Hann var ofurölvi við stjórn hennar og er auk þess grunaður um að hafa verið undir áhrifum fíkniefna.

Einn ökumaður var kærður fyrir of hraðan akstur innanbæjar í Keflavík, en hann mældist á 81 km hraða.

Hestar ósáttir við hafa ekki fengið að fara á Hellu

Þá hafa borist tilkynningar um að hestar hafi verið að sleppa út úr girðingum, innanbæjar í Garði og Grindavík.  Spurning er hvort þeir hafi verið ósáttir við að sitja heima á meðan landsmótið fer fram á Hellu, samkvæmt dagbók lögreglu.  Lögreglumenn komu þeim aftur á sinn stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert