Fundi var að ljúka rétt í þessu hjá samninganefndum ríkisins og hjúkrunarfræðinga. Eru aðilar bjartsýnir á að samningar geti verið í sjónmáli. Fundi verður haldið áfram í fyrramálið.
Elsa Björk Friðfinnsdóttir, formaður félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, sagði eftir að fundi hafði verið frestað að hljóð væri gott í fólki. Það hefði verið ákveðið að taka daginn í viðræður og það hefði skilað sér.
„Það eru komnar fram hugmyndir sem okkur líst öllum vel á og við munum vinna áfram með þær á morgun,“ segir Elsa. Hún segir að viðræður hafi reyndar ávallt gengið ágætlega þótt þær hafi tekið nokkurn tíma. Báðir aðilar hafi alltaf unnið af fullum heilindum.
„Núna sjáum við eitthvað raunverulegt að vinna með og erum komin vel af stað, það er komin mikil hreyfing á málið og hún á eftir að leiða af sér eitthvað gott,“ segir Elsa að lokum.
Hjúkrunarfræðingar hafa ekki viljað semja um sömu kjör og BSRB gerði fyrir skemmstu og segja að slíkt myndi þýða kjaraskeringu.
Samþykkt var að boða til yfirvinnubanns frá og með 10.
júlí, sem er næstkomandi fimmtudagur, hafi ekki samist fyrir þann tíma.