Kostnaður Tryggingastofnunar vegna lyfja jókst um 14% á fyrsta ársþriðjungi, janúar til apríl, miðað við sama tíma í fyrra, eða um 308 milljónir króna. Helstu ástæður eru aukin lyfjanotkun og lágt gengi íslensku krónunnar. Þetta kemur fram í skýrslu sem lyfjadeild Tryggingastofnunar hefur gefið út.
Kostnaður á fyrsta ársþriðjungi 2008 nam 2.583 milljónum króna. Kostnaður jókst um 14% miðað við sama tíma í fyrra eða um 308 milljónir króna. Skýringar á auknum kostnaði eru einkum tvær.
Í fyrsta lagi hefur notkun aukist mikið miðað við sama tíma í fyrra. Sé miðað við fjölda skilgreindra dagsskammta hefur notkun aukist um 8%. Svo virðist sem notkun aukist nú hlutfallslega meira en áður.
Í annan stað var krónan talsvert veikari á fyrsta ársþriðjungi 2008 en á sama tíma í fyrra. Lyfjakostnaður Tryggingastofnunar sveiflast mjög eftir gengi krónunnar því verð meirihluta lyfja er skráð í erlendri mynt, einkum evru og danskri krónu. Evran var að meðaltali 7% dýrari á fyrsta ársþriðjungi 2008 en á sama tíma í fyrra. Slík gengisbreyting eykur lyfjakostnað TR um a.m.k. 4% miðað við það sem ella hefði orðið.
Kostnaður TR hefur aukist mest vegna flogaveikilyfja, geðrofslyfja,
þunglyndislyfja og lyfja við ofvirkni.
Upplýsingar um almenna
lyfjanotkun og lyfjakostnað eru fengnar úr tölfræðigagnagrunni TR og byggja á
afgreiddum lyfseðlum sem apótek senda TR með rafrænum hætti. Í tölfræðigrunninum
eru eingöngu upplýsingar um notkun lyfseðilsskyldra lyfja afgreiddra úr
apótekum, en hvorki upplýsingar um lausasölulyf sem seld eru án lyfseðils né
lyf sem notuð eru á sjúkrahúsum eða öðrum stofnunum.