Segja Samfylkingu meiri stóriðjusinna en Framsóknarflokkinn

Stjórn Íslandshreyfingarinnar telur atburði síðustu daga sýna að ráðherrar Samfylkingarinnar veiti stóriðjustefnu Sjálfstæðisflokksins svipaðan eða jafnvel meiri stuðning en ráðherrar Framsóknarflokksins veittu í fyrri ríkisstjórn. Þetta kemur fram í ályktun frá stjórn Íslandshreyfingarinnar. „Samfylkingin virðist í sumum efnum ætla að ganga lengra í að umturna einstæðustu náttúrugersemum landsins en umhverfisráðherra og viðskiptaráðherra Framsóknar boðuðu fyrir síðustu kosningar.

Þá kynntu Framsóknarráðherrarnir nýtingaráætlun, þar sem meðal annars var lofað að stefna ekki að virkjanaframkvæmdum við Leirhnjúk og í Gjástykki nema að Alþingi samþykkti það að undangengnu mati.

Tveimur dögum fyrir kosningar gaf iðnaðarráðherra Framsóknar þó mjög hæpið rannsóknarleyfi í Gjástykki, sem Össur Skarphéðinsson hróflaði síðan ekki við, þótt hann hafnaði leyfisveitingum annars staðar. Slíkt leyfi getur falið í sér mikla umhverfisröskun.

Í rammaáætlun þeirri, sem nú er unnið að, verða fimm virkjanasvæði á norðaustanverðu landinu og ellefu svæði á suðvesturlandi undanskilin. Meðal þessara svæða eru Leirhnjúkur og Gjástykki sem Samfylkingarráðherrarnir virðast engan áhuga hafa á að standa vörð um.

Í nýjustu skoðanakönnun kemur fram að tæp 70 prósent stuðningsfólks Samfylkingarinnar vill stóriðjuhlé í samræmi við loforð flokksins fyrir kosningar.

Nú er ljóst að ráðherrar flokksins hafa svikið kosningaloforðin og að atkvæði þessa fólks féllu dauð niður hvað þessi mál varðaði. Hefðu margir varið atkvæði sínu á annan veg ef þeir hefðu vitað um þetta þá," að því er segir í ályktun stjórnar Íslandshreyfingarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert