Magnús Sædal Svavarsson byggingafulltrúi segir að embættið ætli að bregðast við í máli Njarðargötu 35 en vanræksla eiganda þar og framkoma við nágranna sé fyrir neðan allar hellur.
Húsið sem gengur undir nafninu draugahúsið hefur staðið autt í bráðum tuttugu ár án þess að vera hitað upp eða haldið við. Nágrannar hafa ítrekað kvartað án árangurs.
Sami eigandi á einnig Bjarghús við Nönnugötu 10 en það hús er einnig í talsverðri niðurníðslu. Deilur standa yfir um hvort leyfi sem eigandinn fékk hjá skipulagsyfirvöldum til að bæta einni og hálfri hæð ofan á húsið sé enn í fullu gildi. Nágrannar hafa mótmælt þessu leyfi enda gangi það þvert á gildandi deiliskipulag.