Dómstólar virðast hafa látið undan kröfum um að sönnunarbyrði í kynferðisbrotamálum sé snúið við og sökuðum mönnum gert að sanna sakleysi sitt, segir Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari.
Í grein í nýjasta hefti Tímarits Lögréttu segist hann telja að slakað hafi verið verulega á sönnunarkröfum í flokki kynferðisbrota.
Halldóra Halldórsdóttir, ráðgjafi hjá Stígamótum, segir að frá hennar bæjardyrum séð hafi ekki verið slakað á kröfum í kynferðisbrotamálum.
„Það er mjög erfitt að leita réttar síns í þessum málum. Tölur um hversu margir leita til okkar, en hversu fá málanna enda með sakfellingu, segja sína sögu.“
Í greininni gagnrýnir Jón Steinar jafnframt notkun greininga á áfallastreituröskun sem sönnunargögn.
Ágúst Ólafur Ágústsson þingmaður segist ekki sammála Jóni Steinari. „Ég tel þessi mál hafa ákveðna sérstöðu. Ef við styðjumst aðeins við hefðbundnar sannanir eins og játningar eða lífsýni er nánast útilokað að fá sakfellingu í þessum málaflokki.“