Jón Steinar Gunnlaugsson, dómari við Hæstarétt Íslands, svarar gagnrýni Eiríks Tómassonar lagaprófessors á sératkvæði hans í máli Hæstaréttar númer 148/2005 fullum hálsi í nýjasta tölublaði Tímarits Lögréttu, félags laganema við Háskólann í Reykjavík. Dómarar hafa hingað til ekki lagt í vana sinn að svara gagnrýni á störf sín en Jón Steinar rýfur nú þögnina.
Í stuttu máli sagði í sératkvæðinu að sakfelling héraðsdóms byggðist eingöngu á framburði ætlaðs brotaþola og þótt hann teldist „trúverðugur“ gæti hann einn ekki dugað til sakfellingar. Í sérákvæðinu var jafnframt áréttað að samkvæmt 70. grein stjórnarskrár eru menn saklausir uns sekt þeirra er sönnuð og í 45. grein laga um meðferð opinberra mála segir að sönnunarbyrði um sekt sakbornings hvíli á ákæruvaldinu.
Jón Steinar stendur fastur á sínu í grein sinni um að sakfelling hafi einungis byggst á framburði meints brotaþola. Hann bendir á að fjallað hafi verið um vitnisburð hinna þriggja vitna í sératkvæðinu en sá framburður hafi aðeins verið endursögn á því sem brotaþoli sagði við þau. Hið sama hafi gilt um greinargerð forstöðumanns Barnahúss og því hafi hún engu skipt fyrir sönnun sakargifta á hendur ákærða.
Þá segist Jón ekki fá betur séð en prófessorinn telji að aðrar reglur eigi við um sönnunarmat í kynferðisbrotamálum en öðrum og vitnar því til stuðnings beint í grein Eiríks. Jón Steinar bendir á að samkvæmt 45. og 46. grein laga um meðferð opinberra mála verði sönnun ákæruvalds að uppfylla þá kröfu að verða ekki véfengd með skynsamlegum rökum og slíkt gildi um alla brotaflokka. Hann spyr því hvað fái prófessor Eirík á þá skoðun að mismunandi reglur gildi eftir brotaflokkum.
Hann segir þó að ef til vill sé nokkuð til í því sem óbeint komi fram í máli prófessorsins, að dómstólar hafi slakað á sönnunarkröfum í þessum brotaflokki. Hann segir þó að réttmæt þrá eftir því að brotamenn sleppi ekki við refsingu megi ekki valda því að búnar séu til aðferðir sem þessar við sönnunarfærslu.
Jón bendir á fjölda nýlegra dóma Hæstaréttar af öðrum sviðum þar sem sönnunarbyrði virðist mjög ströng.
Jón lýkur grein sinni á að segja að kynferðisbrot séu mjög alvarleg brot og séu sérstaklega svívirðileg beinist þau að börnum. Hann segir sönnunarmat í þessum málum oft erfitt en slíkt megi ekki valda því að horfið sé frá meginreglum um réttarvernd þeirra sem sakaðir eru um afbrot.