„Von okkar og bæn er sú að við fáum að dveljast hér áfram,“ segir Rosemary Atieno Athiembo, eiginkona Keníamannsins Pauls Ramses sem Útlendingastofnun vísaði úr landi á fimmtudag í síðustu viku. Rosemary, sem fengið hefur þau boð að henni verði einnig vísað úr landi, er enn í óvissu um hvenær verði af því. Á meðan hún bíður sinnir hún Fídel Smára, sex vikna gömlum syni þeirra Pauls, í íbúð sem þau hafa búið í hér á landi síðastliðna mánuði.
Rosemary kynntist Paul, eiginmanni sínum, fyrir um fimm árum í heimalandi þeirra Kenía. „Við kynntumst í gegnum kirkjustarf. Hann vann með ungmennum en ég var í kirkjukórnum, þannig hittumst við,“ segir hún.
Undanfarin ár hafa Paul og Rosemary ekki dvalist saman að öllu leyti en árið 2005 kom Paul til Íslands á vegum AUS-ungmennaskipta. „Þá vann hann hér sem sjálfboðaliði í eitt ár,“ segir Rosemary. Þaðan fór hann aftur til Kenía og starfaði m.a. fyrir ABC-barnahjálpina, að sögn Rosemary. Hann vann við það verkefni þar til í fyrra „en þá hætti hann og fór út í stjórnmál“.
Í Morgunblaðinu í dag er birt ítarlegt viðtal Elvu Bjarkar við Rosemary.
„Ég hef ekkert nema gott eitt að segja um að vakið sé máls á þessu við ítölsk stjórnvöld,“ segir Björn Bjarnason dómsmálaráðherra um ákvörðun utanríkisráðherra. Ítala sé að „taka afstöðu til þess, hvort veita eigi Paul Ramses hæli sem pólitískum flóttamanni. Franco Frattini, utanríkisráðherra Ítalíu, fór í mörg ár með þau mál innan framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem lúta að framkvæmd Schengen-samstarfsins og þar með Dyflinnarsamningsins, sem er grundvallarskjal í málum sem þessum. Hann hefur yfirburðaþekkingu á þessu sviði. Hann þekkir einnig vel til hér á landi og er velviljaður landi og þjóð, rödd Íslands á örugglega hljómgrunn hjá honum,“ segir Björn.
Ágúst Ólafur segir að mál Pauls Ramses verði að sjálfsögðu rætt á fundinum, auk þess sem nefndin líti til framtíðar og afli sér upplýsinga um regluverk og framkvæmd þessara mála. Fulltrúar dómsmálaráðuneytis, Útlendingastofnunar, Amnesty, Rauða krossins og Alþjóðahúss mæti á fundinn, en vinstri græn óskuðu eftir að mál Ramses yrði tekið upp í nefndinni.
Ágúst Ólafur segir það skoðun sína að dómsmálaráðherra eigi að endurskoða ákvörðun Útlendingastofnunar og hafa mannúðarsjónarmið í huga. „Ég tel það mikilvægt og sýnist svigrúm fyrir hann að gera það,“ segir Ágúst.
Mikilvægt sé að Paul fái að koma hingað aftur og mál hans verði tekið fyrir. Ágúst Ólafur segir málið ekki hafa verið rætt á þingflokksfundi Samfylkingarinnar. Hann telji hins vegar að hann hafi skilning samfylkingarfólks varðandi þetta sjónarmið. „En ég lít ekki á þetta mál sem flokkspólitíska ákvörðun,“ segir hann. Ákvörðunin um brottvísun hafi verið tekin hjá Útlendingastofnun.