Ferðaskrifstofa Íslands hefur ekki sent bréf til viðskiptavina

mbl.is/Brynjar Gauti

Forstjóri Ferðaskrifstofu Íslands, Þorsteinn Guðjónsson, segir í samtali við mbl.is að ferðaskrifstofurnar Úrval Útsýn, Plúsferðir og Sumarferðir, hafi ekki sent bréf til viðskiptavina sinna, þar sem þeim er tilkynnt að ferðin þeirra hafi hækkað í verði. Í frétt í 24 stundum í dag kemur fram að nokkuð hafi borið á að viðskiptavinir ferðaskrifstofa hafi fengið slíkt bréf.

Að sögn Halldórs Oddssonar, starfsmanns Neytendasamtakanna, er ferðaskrifstofum heimilt að breyta verði að vissum skilyrðum uppfylltum. Fjölmargar kvartanir og fyrirspurnir hafa borist samtökunum vegna þessa. Um nokkrar ferðaskrifstofur sé að ræða, en þó hafi ekki allar sent slíkt bréf. Hækkanirnar séu margar um og yfir 10%, og er gengi krónunnar nefnt sem helsta skýringin.

„Verðið hækkaði um 8,5% á þeim ferðum, sem ekki höfðu verið fullgreiddar í mars vegna gengisbreytingar, og aftur um 9,3% frá 14. júlí,“ segir Andri Ingólfsson, eigandi Heimsferða í 24 stundum í dag.

„Því fer fjarri að við bætum allri gengishækkuninni [þ.e. hækkun erlendra gjaldmiðla] inn í okkar verð, þá hefðum við þurft að hækka allar ferðir um 30% eða meira. Við erum að taka á okkur meira en helming af allri gengishækkuninni sem hefur verið á árinu. Viðskiptavinum okkar hefur ávallt staðið til boða að gengistryggja sig með því að fullgreiða ferðina, sem velflestir gera.“

Að sögn Andra koma skilmálar varðandi mögulegar verðbreytingar fram í öllum staðfestingum til viðskiptavina, bæði tölvupóstum og reikningum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka