Hjúkrunarfræðingar voru rétt í þessu að undirrita samninga við ríkið. Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, sagði í samtali við Mbl fyrir undirritun að þetta væri mikill léttir og að samningsaðilar væru báðir mjög ánægðir með að það hafi tekist að forða yfirvinnuverkfalli.
Indælt stríð
„Þetta er búið að vera indælt stríð,“ sagði Elsa í samtalið við Morgunblaðið eftir undirritun samningsins.
Elsa sagði að þótt aðilar hefðu stundum verið missáttir við ýmis atriði hefði verið talað í gegnum þau og komist að samkomulagi sem báðir aðilar væru sáttir við.
Veruleg hækkun dagvinnulauna
„Við náðum okkar aðalmarkmiði sem var að hækka grunnlaunin. Þetta gerum við með verulegri hækkun dagvinnulauna,“ segir Elsa.
Aðalatriði samningsins eru að öðru leyti þau að yfirvinnuprósenta lækkar og einhverjar breytingar verða á vaktaskipulagi. Þá verða breytingar á réttindum hjúkrunarfræðinga 55 ára og eldri.
Kosningum lokið fyrir 20.júlí
„Við teljum þetta vera ágætis samkomulag og núna hefjumst við handa við að kynna þetta fyrir okkar félagsmönnum. Ég á ekki von á öðru en að þetta verði samþykkt,“ sagði Elsa að endingu og fór að gæða sér á vöfflum með félögum sínum í samninganefndinni en að lokinni undirritun var öllum boðið í vöfflukaffi til að fagna árangrinum. Var þar glatt á hjalla.
Gert er ráð fyrir að kosningum um samninginn verði lokið fyrir 20. júlí en þær verða framkvæmdar á rafrænan hátt.