Hluti af gamalli skriðu í Kálfanesfjalli sem í daglegu tali er kölluð Hraunið hefur færst úr á árinu. Svæðið er á útivistarsvæði Hólmvíkinga og malarnám er í hluta hennar.
Hafdís Sturlaugsdóttir, landnýtingarfræðingar á Náttúrustofu Vestfjarða, sagðist hafa tekið eftir brotsári í skriðunni í síðustu viku. Hafi það verið svart eftir rigningar og því skorið sig úr mosa- og fléttuvaxinni skriðunni.
„Þetta er eldra berghlaup og þarna hefur fallið skriða og nú hefur hluti af henni farið af stað aftur í heilu lagi,“ segir Hafdís. Hún segist ekki vita hvenær þetta hafi gerst en líklega sé það seint í vetur eða snemma í vor.
Hafdís segir skriðuna hafi farið yfir gróið land en engin mannvirki séu í hættu. Skriðan sem fór af stað er um tuttugu metrar á breidd efst, í kringum fimm hundruð metra löng og á að giska tvær mannhæðir þar sem hún endar.
„Ef hún fer af stað aftur myndi það gerast mjög hægt því hallinn er ekki mikill á því svæði sem hún er núna,“ segir Hafdís. Hún segir ómögulegt að segja til um hvort jarðskjálfinn í júní hafi hleypt skriðunni af stað en skjálftinn hafi að minnsta kosti fundist á Hólmavík.