„Það væru mistök að hætta að styðjast við greiningar á áfallastreituröskun í kynferðisbrotadómum,“ segir dr. Berglind Guðmundsdóttir, sálfræðingur hjá Neyðarmóttöku Landspítalans.
Eins og sagt var frá í 24 stundum í gær bendir Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari, í grein sem hann ritar, á að erfitt sé að vita hvað það er sem veldur röskun eða vanlíðan. Segir hann greiningu á áfallastreituröskun ekki til þess fallna að sanna sök sakbornings.
Kærandi geti jafnvel upplifað áfallastreituröskun vegna kærunnar og niðurlægingar sem henni fylgir.
Hún segir mjög erfitt fyrir kæranda að gera sér upp áfallastreituröskun sem viðbrögð við kynferðisofbeldi. „Viðkomandi þarf þá að hafa gríðarlega mikla þekkingu á áfallastreituröskun og vita að hverju greinandinn leitar.“
Spurningalistar eru aðeins lítill hluti af þeim tólum sem notuð eru til að greina áfallastreituröskun, segir Berglind. Einnig sé viðkomandi tekinn í ítarleg viðtöl, enda einkennin ekki augljós.