Hver stórlaxinn á fætur öðrum, yfir 20 pund, hefur veiðst í Breiðdalsá síðustu daga. Fyrst veiddi sr. Gunnlaugur Stefánsson í Heydölum 102 sm langa hrygnu sem hann sleppti en var áætluð 22 pund. Var það stærsti lax sem veiðst hafði í ánni. Þá veiddist 98 sm langur hængur sem var settur í klakkistu en veginn tvisvar sinnum. Miðað við viðmiðunarkvarða Veiðimálastofnunar ætti hann að hafa verið undir 20 pundum en hann vóg 23,5. Var fiskurinn afar myndarlegur en ummál hans var 55 sm. Í fyrradag veiddist síðan þriðji stórlaxinn. Var hann sléttur metri á lengd en var ekki veginn áður en honum var sleppt. Þeir sem sáu báða þessa laxa og hafa samanburðinn segja þennan hafa verið enn stærri; áætla 25 pund.
Að sögn Þrastar Elliðasonar leigutaka tók laxinn hitstúpu svissnesks veiðimanns í Ármótahyl og stóð viðureignin í tvær klukkustundir, enda veiðitækin fínleg.
„Það sá enginn annar en Gunnlaugur fiskinn hans, ég er viss um að hann var enn þyngri, enda hnausþykk hrygna,“ segir Þröstur. Smálax er að ganga í bland við þá stóru í Breiðdalnum en auk fyrrnefndra laxa hefur veiðst einn 19 punda og nokkrir um 16 pund.
„Það eru bara góðar veiðifréttir þessa dagana!“ segir Stefán Sigurðsson sölustjóri hjá Lax-á. „Þessir stóru fiskar eru alls staðar á ferðinni. Við erum sterk á Norðurlandinu, þar sem er höfuðvígi stórlaxins og í Blöndu hefur lax til að mynda verið að veiðast á öllum svæðum. Hún hefur gefið um 400 og lax er líka að veiðast í Svartá. Um 10 þessara laxa eru smálaxar, hinir eru allir stórir.“ Einn 21 punds veiddist þar í gær.Víðidalsá er komin vel í gang en 55 laxar veiddust í síðasta holli og er laxinn dreifður um alla á. Þá er lax að ganga í Laxá í Ásum, sex fengust í fyrradag, allt göngulaxar.
Afar vel veiðist í Norðurá í Borgarfirði í blíðviðrinu.„Hér er rosafín veiði,“ sagði Mjöll Daníelsdóttir, starfsmaður í veiðihúsinu við ána, í hádeginu í gær. Hún sagði að í fyrradag hefðu veiðst 56 laxar og veiðin í Norðurá I væri í um 600 fiskum – samtals stefndi veiðin í ánni í um 800 laxa.