Þyrlur sveima yfir þjóðgarði

Þingvallanefnd hefur kynnt eigendum sumarhúsalóða innan þjóðgarðsins á Þingvöllum drög að nýjum reglum um sumarhús. Þar er lagt bann við nýbyggingum og girðingum um einkalóðir.

Ekkert slíkt hefur þó enn verið samþykkt og því rjúfa þyrluspaðar kyrrðina í þjóðgarðinum þar sem þyrlurnar flytja steypu og verkfæri að nýjum glæsibyggingum við Valhallarstíg, en þær eru að rísa svo að segja í hjarta þjóðgarðsins. Þangað liggur enginn bílvegur og menn þurfa að ganga allra ferða sinna og hafi þeir miklar byrðar, er hægt að notast við hjólbörur. Þeir efnameiri geta þó notað þyrlur og fjórhjól. 

Nútímalegar byggingar rísa við stíginn en samkvæmt eldri reglugerð mega þær þó ekki vera stærri en níutíu fermetrar. Sumstaðar virðist þó farið frjáslega með reglurnar.

Þá gera lög ráð fyrir að allir eigi að geta gengið óhindraðir meðfram vatni en sumarhúsaeigendur við Valhallarstíg virðast þó ekki allir sáttir við það. Samkvæmt nýju reglunum sem hafa verið sendar sumarhúsaeigendum til kynningar stendur þó til að breyta þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert