Stjórn Landssamtaka landeigenda á Íslandi gagnrýnir og lýsir yfir vonbrigðum og undrun yfir því að ríkið skuli ekki afturkalla landakröfur sínar á vestanverðu Norðurlandi. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá stjórninni.
„Stjórn Landssamtaka landeigenda á Íslandi lýsir yfir undrun sinni og vonbrigðum með að ríkisvaldið skuli ekki draga lærdóm af úrskurði óbyggðanefndar varðandi austanvert Norðurland (svæði 6) og afturkalla fráleitar landakröfur sínar á vestanverðu Norðurlandi (svæði 7).
Fyrir liggur að óbyggðanefnd hafnaði að stærstum hluta kröfum ríkisins á austanverðu Norðurlandi með úrskurði sínum 6. júní 2008. Þar með var í raun staðfest það sjónarmið, sem landeigendur hafa ítrekað haldið fram, að ríkið fari fram með rakalausri hörku í þjóðlendumálinu.
Furðu sætir að fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisins skyldi ekki afturkalla þegar í stað kröfur sínar gagnvart landeigendum á suðurhluta svæðis 7 á Norðurlandi (frá Fnjóská að Blöndu). Þar er fyrst til að taka að landakröfurnar sem slíkar eru í engu samræmi við boðskap fjármálaráðherra sjálfs í febrúar 2008 um að ríkið ætlaði eftirleiðis að fara hægar í sakir í þjóðlendumálum en áður. Í öðru lagi er úrskurður óbyggðanefndar frá 6. júní síðastliðnum efnislega á þann veg að fyrirliggjandi kröfur ríkisins á svæði 7 hljóta að teljast dauðadæmdar fyrirfram. Það væri því með miklum ólíkindum ef ríkið ætlaði sér að halda kröfum sínum og óbilgirni í þjóðlendumálinu til steitu eftir það sem á undan er gengið," að því er segir í yfirlýsingu.