Búsetuúrræði við Hólavað verður kynnt fyrir íbúum. Heimilinu er ætlað að hjálpa einstaklingum sem verið hafa í neyslu að ná tökum á lífi sínu.
Velferðarsvið
Reykjavíkurborgar hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna fyrirhugaðs búsetuúrræðis
við Hólavað. Málið hefur verið í umræðunni undanfarið og vill sviðið því koma ákveðnum upplýsingum á framfæri.
Í yfirlýsingunni kemur fram að Velferðarráð Reykjavíkurborgar hafi samþykkt á fundi sínum 9. apríl síðastliðinn að ganga til samninga við Heilsuverndarstöðina ehf/ Alhjúkrun um rekstur á nýju búsetuúrræði með félagslegum stuðningi. Búsetuúrræðið er samvinnuverkefni Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og félags- og tryggingamálaráðuneytisins.
Búsetuúrræðið er ætlað fyrir 20 einstaklinga sem hætt hafa neyslu áfengis eða vímuefna en þurfa á umtalsverðum stuðningi að halda til að ná tökum á lífi sínu.Markmiðið er að veita húsaskjól, félagslegan stuðning og endurhæfingu fyrir einstaklinga sem hætt hafa neyslu áfengis- og vímuefna en þarfnast sérstaks stuðnings til að geta búið sjálfstætt og tekið virkan þátt í samfélaginu án neyslu áfengis- og vímuefna.
Heimilinu er ætlað að tryggja jafnrétti og skapa skilyrði til eðlilegs lífs þrátt fyrir að viðkomandi hafi átt við erfiðleika að stríða.
Í yfirlýsingunni stendur að gerð verði endurhæfingaráætlun við hvern einstakling varðandi þjálfun í athöfnum daglegs lífs og virka þátttöku í samfélaginu með stuðningi, hvatningu og leiðbeiningum starfsfólks.
Á heimilinu er ætlunin að hafa sólarhringsvakt og verður einstaklingum á heimilinu ekki heimilt að neyta áfengis eða fíkniefna á meðan þeir búa þar. Sérstakur samningur verður gerður við hvern einstakling sem kveður á um umgengnis- og húsreglur og viðbrögð við brotum á þeim.
Velferðarsvið hefur ekki lokið samningum við Heilsuverndarstöðina þar sem ekki liggur endanlega fyrir hvort umrætt húsnæði sé til ráðstöfunar þar sem það er nú í eigu þrotabús.
Þá segir að starfsemi heimilisins verði kynnt fyrir íbúum þegar tryggt verður að Heilsuverndarstöðin hafi húsnæðið til ráðstöfunar