Vegna kvartana nágranna hefur vinnutími þeirra sem starfa við viðgerð á Hallgrímskirkju verið styttur. Er nú unnið til klukkan 20 á virkum dögum og á laugardögum er múrbroti hætt klukkan 15.30 en háþrýstiþvotti kl. 18, en eins og staðan er í dag, þá þeir sem koma að framkvæmdunum sér ekki fært að stytta vinnuvikuna frekar. Þetta kemur fram í yfirlýsingu.
„Það var viðbúið að viðgerð á mannvirki af stærð við Hallgrímskirkju yrði umtöluð, enda þykir okkur vænt um þetta frægasta kennileiti Reykjavíkur. Það er því fyrir öllu að vel takist til. Ósk okkar hefur alltaf verið sú að vinna þetta verk í sátt við íbúa Skólavörðuholtsins sem og aðra Reykvíkinga og við hörmum það tímabundna ónæði sem af viðgerðunum hlýst.
Lengi hefur legið fyrir að ráðast í viðgerðir á Hallgrímskirkjuturni en nýverið var ástand turnsins metið þannig að töluverð hætta væri orðin á að skemmdir steypuhlutar hreinlega losnuðu frá turninum og hryndu til jarðar. Sú hætta sem vegna þess gæti skapast, yrði aldrei réttlætt. Því var ákveðið að ráðast í verulegar viðgerðir, sem ætti að framkvæma bæði hratt og vel.
Viðgerðirnar fara þannig fram að í fyrstu er veðrunarkápunni flett af með háþrýstiþvotti, þar sem mjög öflug dæla er notuð til verksins. Þá blasir við mjög mismunandi skemmd steypa. Í sumum tilfellum nægir að fylla í sprungur og í öðrum tilfellum þarf að fjarlægja stór svæði með múrbroti og endursteypa.
Ástæður þess að lengja hefur þurft vinnutímann, eru ekki af góðu komnar. Við fjarlægingu veðrunarkápunnar hafa mun víðtækari og alvarlegri skemmdir komið í ljós en áður var talið. Þar sem tíminn sem hentar til múrviðgerða utandyra takmarkast við okkar stutta sumar, höfum við því þurft að leggja aukið kapp á að reyna að ljúka viðgerðum sem fyrst. Vegna þessa neyddumst við í upphafi til þess að lengja vinnutímann til kl. 21:30 á kvöldin og vinna einnig á laugardögum.
Ósk okkar hefur alltaf verið sú að vinna þetta verk í sátt við íbúa Skólavörðuholtsins og er málefnalegar kvartanir bárust, tókum við þær vissulega til greina.
Því er nú er aðeins unnið til u.þ.b. kl. 20 á virkum dögum, sem er um 12 tíma vinnudagur. Á laugardögum er múrbroti hætt kl. 15.30 en háþrýstiþvotti kl. 18, en eins og staðan er í dag, þá sjáum við okkur ekki fært að stytta vinnuvikuna frekar," að því er segir í yfirlýsingunni.
Fyrsti laugardagur í múrbroti var 7. júní og vonast er til að brotvinnu ljúki í lok byrjun september og ef framgangur verksins lofar, mun hávaðasamri laugardagsvinnu ljúka fyrr, að því er segir í yfirlýsingu frá þeim sem koma að framkvæmdunum.