Dagur: kostnaður mun meiri en haldið er fram

Götumynd af Laugavegi 4-6
Götumynd af Laugavegi 4-6

Í borgarráði í dag var samþykkt að auglýsa nýtt skipulag á Laugavegi 4 og 6 eftir hálfs árs undirbúning. Órökstuddar fullyrðingar um að kostnaðar borgarinnar vegna verkefnisins verði um 200 milljónir króna þegar upp verður staðið hafa verið settar fram í fjölmiðlum, segir Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar.

„Gögn málsins bera hins vegar með sér að heildarfjárútlát Reykjavíkurborgar vegna verkefnisins verði á bilinu 1.000 - 1.100 milljónir króna.

Miðað við að gott verð fáist fyrir eignirnar (miðað við gott ástand á markaði) geta fengist allt að 520 milljónir fyrir þær. Því er ljóst að fórnarkostnaður Reykjavíkurborgar verður ekki undir hálfum milljarði króna, samkvæmt upplýsingum frá Degi.

Bókun minnihluta borgarráðs um Laugaveg 4 og 6


„Því er fagnað að loks hilli undir að hreyfing fari að komast á endurgerð húsanna við Laugaveg 4 og 6. Af gögnum málsins er ljóst að heildarfjárútlát  Reykjavíkurborgar af verkefninu á Laugavegi 4 og 6 getur orðið meira en milljarður króna og fórnarkostnaðurinn sem falla mun á borgarsjóð verður ekki undir hálfum milljarði en ekki um 200 milljónir einsog formaður skipulagsráð hefur haldið fram í fréttum.

Eignirnar voru keyptar á yfirverði, 580 mkr, og miðað við kostnaðaráætlun Minjaverndar og Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen frá janúar sl. og þann kostnað sem nú hefur verið lagður í skipulag og hönnun má gera ráð fyrir að 400 – 500 milljónir króna verði lagðar til endurbyggingar og hönnunar.

Endanlegt söluverð verkefnisins ræðst af aðstæðum á markaði og þeim tímapunkti sem valinn verður til útboðs eða sölu. Byggt á sömu gögnum og áður hefur verið vísað til og miðað við góðar aðstæður á markaði má gera ráð fyrir selja megi gömlu húsin fyrir um 140 milljónir króna (mv. 350.000 kr/m2), selja megi tilbúnar nýbyggingar á um 240 milljónir króna (mv. 300.000 kr/m2) og fá megi 141 mkr. fyrir eignarhlut á Skólavörðustíg 1a (mv. 300.000 kr/m2).

Samandregið verða fjárútlát Reykjavíkurborgar því á bilinu 1.000-1.100 milljónir króna og söluverð eignanna allt að 520 milljónir króna þannig að mismunurinn, fórnarkostnaður Reykjavíkurborgar, verður hálfur milljarður króna. Þá er ótalinn fjármagnskostnaður vegna fjárbindingarinnar sem í verkefninu felst," að því er segir í bókun minnihlutans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert