Bæjarstjórinn í Grindavík var með eina komma fjórar milljónir króna á mánuði í laun. Starfslokasamningur hans gerði ráð fyrir að hann fengi greidd laun út kjörtímabilið ef hann léti af störfum fyrr. Til viðbótar því fær hann sex mánaða biðlaun.
Það kostaði fjörutíu og fimm milljónir að slíta samstarfi meirihlutans í Grindavík vegna starfslokasamnings bæjarstjórans. Jóna Kristín Þorvaldsdóttir sem tekur við sem bæjarstjóri eftir helgi segir að Grindavík sé vel statt bæjarfélag sem hafi efni á að greiða góð laun. Laun bæjarstjóra voru rúmar áttahundruð þúsund í upphafi kjörtímabils. Þau hækkuðu um tvöhundruð og fimmtíu þúsund þegar bæjarstjóranum var gert að útvega sitt eigið húsnæði í bænum fyrir um það bil ári. Þá hafði bæjarstjórinn eitthundrað þúsund í bílastyrk á mánuði. Aðrar launahækkanir á síðustu tveimur árum eru vegna sérstaks ákvæðis í ráðningarsamningi sem gerir ráð fyrir að launin séu endurskoðuð á þriggja mánaða fresti með tilliti til breytinga á launavísitölu.