Ekki með aðgang að skjalageymslum

Húsnæði Orkuveitu Reykjavíkur
Húsnæði Orkuveitu Reykjavíkur mbl.is/Sverrir

Guðmundur Þóroddsson, fyrrverandi forstjóri OR, segir að gögnin sem hann hafi undir hendi séu afrit af fundargögnum og að engin gögn hafi verið tekin úr skjalageymslum/kerfi Orkuveitu Reykjavíkur eins og látið er liggja að í fréttum enda hafi hann ekki haft aðgang að skjalageymslum OR frá því að hann fór í leyfi fyrir 9 mánuðum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Guðmundi Þóroddssyni.

„Að gefnu tilefni telur undirritaður Guðmundur Þóroddsson, fv. forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur rétt að taka fram:

„Gögn þau sem farið er fram á að skilað sé eru gögn sem geymd hafa verið í skrifstofu undirritaðs frá upphafi, eru afrit af frumgögnum og innihalda eintök undirritaðs af fundargögnum stjórnarfunda OR frá 1999 þar til hann fór í leyfi til að gegna starfi forstjóra REI sl. sumar.  Gögn stjórnarfunda eru send stjórnarmönnum og forstjóra OR fyrir hvern stjórnarfund eða dreift á fundinum. 

Samkvæmt lögum um Orkuveituna hafa þessir aðilar rétt til setu á stjórnarfundum.  Almennt er talið að menn eigi rétt á að hafa aðgang að fundargögnum þeirra funda sem þeir bera ábyrgð á.


Engin gögn hafa verið tekin úr skjalageymslum/kerfi Orkuveitu Reykjavíkur eins og látið er liggja að í fréttum.  Staðreyndin er sú að undirritaður hefur ekki haft aðgang að skjalakerfi Orkuveitunnar frá því að hann fór í leyfi fyrir 9 mánuðum. 

Öll frumrit fundargerða svo og allir samningar og skjöl sem fyrir stjórn eru lagðir eru geymdir í skjalakerfi Orkuveitunnar og aðgengileg starfsmönnum á rafrænan hátt í því. Það stenst því engan veginn að starfsmenn Orkuveitunnar hafi ekki getað sinnt sínum störfum vegna skorts á þessum gögnum, eins og haldið var fram í fréttum Sjónvarpsins í gærkvöldi. Heimildir fyrir því eru augljóslega ekki komnar innan úr fyrirtækinu, heldur einhverjum sem ekki þekkir vel til mála," að því er segir í yfirlýsingu Guðmundar.

Óvænt bréf frá lögmönnum

Þar sem núverandi forstjóri OR hefur talið að mikilvægt væri fyrir fyrirtækið að fá þessi gögn til varðveislu hefur undirritaður átt í vinsamlegum viðræðum við hann um hvernig því verður við komið.

  Í því ljósi taldi undirritaður að samkomulag væri um málsmeðferð þegar harðort bréf barst óvænt frá lögmönnum í gær þar sem settar voru fram kröfur, eins og greint hefur verið frá. Þar sem slík harka er komin í málið, tel ég rétt að fela lögmönnum mínum að meta úrlausn þessa máls sérstaklega.

Hvað varðar kröfu um skil á bifreið þeirri, sem var hluti af starfskjörum mínum hjá Orkuveitunni, hefur sá skilningur verið uppi að þau afnot séu hluti af starfskjörum þeim sem enn eru í gildi milli undirritaðs og Orkuveitunnar og verða næstu tæpu ellefu mánuði, samkvæmt ráðningarsamningi. Ef komin eru upp ný sjónarmið í því máli, er auðvitað sjálfsagt að ræða það, eins og tíðkast almennt í samskiptum vinnuveitenda og launþega," segir ennfremur í yfirlýsingu.

Furðar sig á vinnubrögðum Ríkissjónvarpsins

Guðmundur lýsir yfir furðu á einhliða fréttaflutningi Ríkissjónvarpsins af þessu máli í gærkvöldi, í yfirlýsingunni. Segir hann að engin tilraun hafi verið  gerð til að bera efni fréttarinnar eða þær alvarlegu ásakanir sem þar komu fram undir þann sem hún þó fjallar um.

Ætlar að athuga með mögulega málsókn

„Ekkert var heldur haft eftir forsvarsmönnum Orkuveitunnar, enda segir forstjóri fyrirtækisins í fjölmiðlum, að málið sé alls ekki jafn alvarlegt og gefið sé í skyn í fjölmiðlum. Það verður að teljast fáheyrt og mun undirritaður í framhaldinu ræða við lögmenn sína um mögulega málssókn af þessum sökum, enda ber allt þetta ferli keim af því að verið sé að hanna tiltekna atburðarás.

 Þá sætir einnig furðu að forstjóri Orkuveitunnar upplýsi nú í fjölmiðlum, að það hafi ekki verið að hans beiðni að leitað var til lögfræðings um þessi mál. Því vaknar sú spurning, að hvers beiðni var það þá og hvaða hvatir liggja þar að baki?"

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert